Aðalfundur fasteignafélagsins Regins fór fram í Hörpu í gær, en meðal annars fór þar fram kosning til félagsstjórnar fyrirtæksins. Eftir niðurstöðu margfeldiskosningar var ljóst að kjörin stjórn uppfyllti ekki skilyrði laga um kynjahlutfall. Í framhaldi af þeirri niðurstöðu dró Jón Steindór Valdimarsson framboð sitt til stjórnar til baka. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu til Kauphallarinnar.

Alls buðu sex einstaklingar fram krafta sína í fimm stjórnarsæti. Nýkjörin stjórn Regins er nú skipuð þeim Albert Þór Jónssyni, Benedikt K. Kristjánssyni, Bryndísi Hrafnkelsdóttur, Sigríði Hrefnu Hrafnkelsdóttur og Tómasi Kristjánssyni. Í varastjórn voru kjörin þau Finnur Reyr Stefánsson og Hjördís D. Vilhjálmsdóttir.