*

laugardagur, 28. nóvember 2020
Innlent 16. nóvember 2020 10:19

Dró sér sjö milljónir gegnum getraunir

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið dæmdur til fimm mánaða óskilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir auðgunarbrot.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Karlmaður á þrítugsaldri var í Héraðsdómi Reykjavíkur undir lok síðasta mánaðar dæmdur til fimm mánaða óskilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir fjárdrátt, fjársvik og peningaþvætti. Maðurinn nýtti sér aðstöðu sína sem starfsmaður Kvikk verslunar til að draga sér 600 getraunaseðla án þess að greiða fyrir þá krónu.

Brot mannsins stóðu yfir frá miðjum apríl í fyrra fram í miðjan maí. Verðmæti getraunaseðlanna var alls tæpar sjö milljónir króna en af seðlunum 600 var vinningur á 114 þeirra. Andvirði vinninga var rúmlega 2,9 milljónir króna en þar af náði maðurinn að leysa út 1,7 milljónir króna hjá Íslenskri getspá. Hluta þess nýtti hann sér meðal annars til að kaupa sér nýja fartölvu.

Undir rannsókn málsins haldlagði lögregla rúmlega eina milljón króna á bankareikningi mannsins sem talið var að væri ávinningur brota hans. Basko verslanir ehf., rekstraraðili Kvikk, gerði í fyrstu kröfu um að maðurinn myndi endurgreiðla sjö milljónir króna, auk skaðabóta- og dráttarvaxta, en breytti kröfu sinni við þingfestingu. Sátt hafði náðst um að maðurinn greiddi rúmlega milljón krónur í skaðabætur auk dráttarvaxta og þess farið á leit að haldlagðir fjármunir myndu renna upp í þá kröfu. Þá var fallið frá kröfu um málskostnað af hálfu einkaréttarkröfuhafa.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að maðurinn játaði sök auk þess að hann hafði samþykkt bótakröfuna og reynt að bæta tjón það sem hlaust af brotum hans. Var það metið honum til refsimildunar. Á móti horfði til refsiþyngingar að brotin voru síendurtekin, skipulögð og brotavilji var afar einbeittur. Hin sömu áhrif hafði að hann misnotaði aðstöðu sína við verknaðinn og að umfang tjónsins var umtalsvert.

Refsing þótti hæfilega ákveðin fimm mánaða fangelsisvist en í ljósi þess hve ítrekuð þau voru þótti ekki unnt að skilorðsbinda refsinguna. Hinir haldlögðu fjármunir voru gerðir upptækir og runnu þeir til Basko verslana. Þá var manninum gert að greiða þóknun til verjanda síns, alls tæpar 115 þúsund krónur.