*

föstudagur, 13. desember 2019
Innlent 22. mars 2019 17:17

Dró úr hækkun Icelandair er á leið dags

Gengi bréfa Icelandair hækkaði mest um fjórðung í dag, meðan Úrvalsvísitalan endaði yfir 1.900 stiga múrnum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,73% í dag, upp í 1.940,48 stig, í 5,8 milljarða viðskiptum. Krónan veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntunum, mest gagnvart breska pundinu, japanska jeninu og Bandaríkjadal.

Er þetta í fyrsta sinn síðan 17. maí árið 2017 sem Úrvalsvísitalan rífur 1.900 stiga múrinn í lokagengi sínu, en síðustu tvo daga hefur hún farið upp fyrir múrinn á einhverjum tímapunkti yfir daginn. Hefur lokagengi úrvalsvísitölunnar ekki verið hærri en í dag síðan 9. maí 2017.

Er þessi mikla hækkun þrátt fyrir að öll félög hafi lækkað í virði utan Icelandair, Marel og HB Granda, en viðskiptin með bréfin í þessum félögum námu samanlagt 2,9 milljörðum. Þar af voru eftir sem áður mestu viðskiptin, eða fyrir um 2,1 milljarð króna með bréf Marel sem hækkuðu um 1,32% og enduðu í 536,0 krónum.

61% sveifla á bréfum Icelandair

Icelandair hækkaði hins vegar mest, líkt og undanfarna daga, eða um 5,81% í 784 milljóna viðskiptum og er gengið nú komið upp í 9,10 krónur. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun var hækkunin um tíma í dag nærri tvöfalt meiri.

Mest fór verðið í 10,82 krónur í dag, sem þýðir 26% hækkun miðað við lokagengi í gær. Ef miðað er við þegar bréf félagsins fóru lægst á þriðjudaginn í síðustu viku, 6,73 krónur, nemur sveiflan upp í hæsta punkt dagsins í dag 61% hækkun.

Mest lækkun var hins vegar á bréfum Sýnar, sem lækkuðu um 3,64% í þó ekki nema 61 milljóna viðskiptum og fóru þau niður í 31,8 krónur. 

Næst mest lækkuðu bréf Reginn í virði, eða um 2,37%, niður í 20,60 krónur, í 160 milljóna króna viðskiptum. Loks var Skeljungur með þriðju mestu lækkunina, eða 2,22% í 182 milljóna króna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 7,04 krónur.

Bandaríkjadalur í um 120 krónum

Gengi krónunnar hefur á sama tíma lækkað nokkuð gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, mest gagnvart breska Sterlingspundinu, sem hækkaði um 2,5% gagnvart krónunni og fæst nú á 157,55 krónur.

Næst mest hækkaði japanska Jenið gagnvart krónunni, eða um 2,17% og fæst það nú á 1,0870 krónur, og loks styrktist Bandaríkjadalur um 1,3% gagnvart krónunni, og kostar dalurinn því 119,45 krónur, en sölugengi hans er 120,25.