Hlutabréfavísitölur vestanhafs hækkuðu í viðskiptum í dag, þó hratt hafi dregið úr hækkun undir lok dagsins. Er það rakið til frétta af mögulegri lækkun á lánshæfiseinkunnum þeirra evruríkja sem standa einna best, þar á meðal Þýskalands.

Dow Jones vísitalan hækkaði um 0,6%, Standard & Poor´s vísitalan hækkaði um 1% og Nasdaq vísitalan um 1,2%.

Búist er við að bandaríska matsfyrirtækið Standard & Poor´s tilkynni á næstu klukkustundum um að lánshæfiseinkunnir Þýskalands, Frakklands, Hollands, Austurríkis, Finnlands og Lúxemborgar verði settar á athugunarlista með neikvæðum horfum. Einkunnir allra þessara ríkja eru í dag AAA.