Innlán minnkuðu hjá SpKef sparisjóði eftir að ríkið tók hann yfir vorið 2010. Þetta kemur fram í svari Oddnýjar G. Harðardóttur fjármálaráðherra við fyrirspurn þingmannanna Lilju Mósesdóttur og Atla Gíslasonar um málefni SpKef eftir að gamli sparisjóðurinn fór í þrot og nýr var reistur á grunni eigna hans. Landsbankinn tók síðar reksturinn yfir. Þau Lilja og Atli spurðu m.a. að því hver innlánaaukningin var hjá SpKef á starfstíma sparisjóðsins og hvað hafi skýrt hana.

Í svari ráðherra kemur m.a. fram að í júní árið 2008 hafi innlán numið 44,9 milljörðum króna. Þau jukust jafnt og þétt eftir það og stóðu í 64,3 milljörðum króna á apríl árið 2010 þegar sparisjóðurinn féll í skaut ríkisins. Eftir það dró úr innlánum og voru þær komnar niður í 57,6 milljarða í mars í fyrra.

Svar fjármálaráðherra um Spkef sparisjóð