Nokkuð hægði á þeim vexti sem verið hefur í sölu smásöluverslana undanfarna mánuði í apríl síðastliðnum, en þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar á Bifröst.

Velta dagvöruverslana dróst saman um 4,0% að raunvirði og 1,8% samdráttur var í sölu á byggingavörum. Hins vegar var þó enn vöxtur í raftækjaverslun sem nam 14,4% að raungildi frá sama mánuði í fyrra og húsgagnasala var einnig 8,7% meiri. Þá jókst sala á áfengi um 5,1%.

„Ýmsar ástæður geta verið fyrir minni sölu dagvöruverslana en í fyrra, eins og tímasetning páska og vikudagamunur. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundna þætti jókst salan um 0,4% frá apríl í fyrra. Þá má ekki gleyma að veðurfræðilegir þættir hafa ávallt einhver áhrif á sölu dagvöru og gæti vorhretið í apríl síðastliðnum haft einhver áhrif á minni sölu,“ segir í tilkynningunni.

Þá jókst greiðslukortavelta heimilanna um 2,4% í apríl frá sama mánuði í fyrra.