Samkvæmt drögum að árshlutareikningi var heildarvelta Icelandair Group á þriðja ársfjórðungi 53,7 milljarðar króna og jókst um 29% frá sama tímabili í fyrra. Þá nam hagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði (EBITDA) 8,4 milljörðum króna, samanborið við 6,2 milljarða á sama tímabili í fyrra. Afskriftir og fjármagnskostnaður hækka talsvert milli ára.

Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair Group til Kauphallarinnar en þar kemur jafnframt fram að birtingu árshlutareiknings 30.9.2009, sem kannaður er af endurskoðendum félagsins, hefur verið frestað fram í viku 49.

Fram kemur í drögunum að EBITDA fyrstu níu mánuði ársins var 7,5 milljarðar króna, samanborið við 7,2 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Velta Icelandair Group á tímabilinu nam 108,1 milljarður króna og jókst um 28% frá sama tímabili í fyrra. Afskriftir og fjármagnskostnaður hækka talsvert milli ára en engar tölur koma fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar. Þó kemur fram að handbært fé í lok september nam 6,1 milljarði króna en var 7,4 milljarðar í lok september 2008.

„Rekstarafkoma þriðja ársfjórðungs er langt umfram upphaflegar áætlanir ársins og ef horft er á rekstrarafkomu fyrir fjármagnsliði er um verulegan rekstrarbata að ræða frá fyrra ári en afskriftir og fjármagnskostnaður hækka talsvert milli ára,“ segir Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group.

„Almennt séð eru félög innan samstæðunnar að skila góðri afkomu á þriðja ársfjórðungi. Í erfiðu árferði, hefur starfsmönnum samstæðunnar með öflugu markaðsstarfi erlendis og kostnaðaraðhaldi tekist að skila góðri rekstrarafkomu. Jafnframt hafa ytri aðstæður svo sem gengi Evru gagnvart Bandaríkjadal og þróun olíuverðs hjálpað til.“

Þá er einnig tekið fram í tilkynningunni að eins og fram hefur komið í upplýsingum frá félaginu er unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu þess.

„Þeirri vinnu miðar ágætlega en er ekki lokið og vegna þeirrar vinnu dregst gerð árshlutareiknings félagsins. Reiknað er með að mikilvægum þáttum í endurskipulagningunni ljúki í nóvember,“ segir jafnframt í tilkynningu