Frumvarpsdrög til heildarlaga um ríkisaðstoð skýrir réttarástandið hér á landi umtalsvert. Á móti er óljósara hvernig lögaðilar, sem telja um ólögmæta ríkisaðstoð handa samkeppnisaðila sé að ræða, eigi að bera sig að við að reka slík mál fyrir dómi hér á landi.

Fyrir stuttu birti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) niðurstöður úttektar á ríkisaðstoðarmálum í EFTA-ríkjunum Íslandi, Noregi og Liechtenstein. Meðal þess sem fram kom í úttektinni var að afar fá slík mál hafi ratað fyrir dómstóla í þau 25 ár sem EES-samningurinn hefur verið í gildi. Mögulegar ástæður fyrir þessu gætu verið óskýrar innleiðingar á reglunum í landsrétt svo og skortur á þekkingu meðal lögmanna og dómara á þeim reglum sem gilda um ríkisaðstoð.

Í EES-samningnum er kveðið á um að ríkisaðstoð sé að meginstefnu ósamrýmanleg samningnum nema sérstaklega sé kveðið á um annað. Athöfn telst ríkisaðstoð ef um er að ræða ráðstöfun hvers kyns opinberra aðila sem hefur í för með sér beinan eða óbeinan ávinning handa ákveðnum fyrirtækjum. Form viðkomandi fyrirtækis hefur ekki áhrif heldur er nóg að það hafi með höndum efnahagslega starfsemi. Umrædd ráðstöfun verður að raska, eða vera til þess fallin til að raska samkeppni, og hafa áhrif á viðskipti milli samningsaðila EES til að teljast ríkisaðstoð.

Umrætt hugtak er víðtækara en ríkisstyrkur enda tekur það ekki aðeins til beins fjárhagslegs ávinnings heldur einnig ráðstafana sem draga úr útgjöldum viðkomandi félags. Leiga á fasteign undir markaðsvirði eða eftirgjöf á gjöldum gæti því fallið innan ramma þess. Víðtækar undantekningar eru frá téðri meginreglu og getur ríkisaðstoð verið heimil í einhverjum tilfellum. Komi hins vegar til þess að slík aðstoð teljist í andstöðu við samninginn ber hlutaðeigandi félagi að endurgreiða hana með vöxtum. Leiki vafi á því hvort aðstoð sé heimil eður ei ber hinu opinbera að leita til ESA áður en fram er haldið. Slíkt hefur verið kallað biðstöðuskylda (e. standstill obligation).

Ísland brotið gegn reglunum

Úttektin er laut að Íslandi var unnin af lögmannsstofunni Advel en þar segir meðal annars að þess þekkist varla dæmi að álitaefni varðandi ríkisaðstoð rati fyrir dómstóla. Aðeins eitt dæmi þekkist þar sem þess var krafist að stjórnvöld virtu biðstöðuskyldu en því máli var vísað frá dómi vegna formannmarka. Í fáum málum hefur verið vikið að reglunum en ekki byggt sérstaklega á þeim. Þá er í úttektinni bent á að það geti reynst erfitt í núverandi umhverfi að þvinga fram biðstöðu fyrir dómi.

„Partur af ríkisaðstoðarreglunum lýtur að því að það á að vera mögulegt fyrir fyrirtæki, sem telja á sér brotið, að sækja rétt sinn beint til dómstóla. Ef um er að ræða aðstoð sem ekki hefur verið tilkynnt til ESA þá áttu að geta fengið dómsúrskurð um efnið. Standi ríkið sig ekki í að tilkynna slíka aðstoð áður en hún er veitt eiga einkaaðilar að hafa þennan möguleika,“ segir Dóra Sif Tynes, lögmaður hjá Advel.

Í gegnum tíðina hefur pottur verið brotinn í þeim efnum. Árið 2014 komst ESA til að mynda að þeirri niðurstöðu að ívilnanasamningar, sem ríkið gerði á grundvelli laga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga, hefðu falið í sér ríkisaðstoð sem ekki stóðst EES-samninginn. Fimm fyrirtækjum var gert að endurgreiða þá fjármuni sem styrkirnir fólu í sér en það voru Becromal, Verne, Íslenska kísilfélagið, Thorsil og GRM Endurvinnslan. Hnýtt var í það í skýrslu ríkisendurskoðunar um Íslandspóst að ekki hefði legið fyrir grænt ljós áður en félagið fékk 500 milljónir að láni frá ríkinu. Þá hefur því verið velt upp hvort slaki Isavia til Wow, hvað varðar greiðslur notendagjalda, hafi falið í sér ólögmæta ríkisaðstoð.

Dóra Sif segir að flækjustigið við að útbúa tæka dómkröfu í slíkum málum sé nokkuð. „Bæði eru þarna spurningar um aðild að slíkum málum og fleiri réttarfarsleg atriði,“ segir hún og bendir á að samkvæmt lögum um kyrrsetningu og lögbann sé ekki hægt að fá lögbann á framkvæmdavaldsathafnir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .