Drómi, félagið sem heldur utan um kröfur þrotabús Frjálsa fjárfestingarbankans og SPRON, hefur upp á síðkastið staðið í stappi við félagið Baðhús Lindu ehf. Félagið er í 100% eigu Lindu Pétursdóttur, sem krýnd var Ungfrú heimur árið 1989. Ágreiningur var á milli félaganna. Ekki er þó vitað um hvað var deilt. Svo langt fór málið að það átti samkvæmt dagskrá að taka fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrramálið. Af því verður hins vegar ekki.

Helgi Jóhannesson, lögmaður félags Lindu, segir í samtali við vb.is, að samkomulag í málinu hafi verið undirritað í dag  og verði það fellt niður á morgun. Hann vildi ekki tjá sig frekar um málið.

Fegurðardrottningin í Baðhúsinu

Félagið Baðhús Lindu heldur það utan um rekstur heilsu – og líkamsræktarstöðvar. Linda er jafnframt framkvæmdastjóri félagsins. Baðhús Lindu er skráð til lögheimilis að Bautarholti 20 en þar er Baðhúsið staðsett og er Linda eigandi þess.

Félagið Baðhús Lindu var stofnað árið 2009. Það hagnaðist um  11,2 milljónir króna árið 2011 samkvæmt síðasta birta uppgjöri. Eignir félagsins námu rúmum 11,3 milljónum króna. Á móti námu skuldir 37 milljónum króna. Eigið fé félagsins var í lok ársins neikvætt um rúmar 8,3 milljónir króna.  Mestu munar um neikvætt ójafnað eigið fé upp á 8,3 milljónir. Ári fyrr nam neikvætt ójafnað eigið fé rúmum 20 milljónum króna.

Í lok árs var félagið með með skuldabréfalán upp á tæpar 11,2 milljónir króna. Á skuldahlið félagsins námu viðskiptaskuldir upp á 14,2 milljónir þyngst auk tæplega 6,3 milljóna skulda við tengd félög.

Þá kemur fram í ársreikningnum að Baðhús Lindu greiddi engan tekjuskatt í fyrra vegna rekstrarársins 2011. Tekjuskattsinneign félagsins  nam tæpum 1,8 milljónum króna í lok árs 2011. Hún var hins vegar ekki færð sem inneign  af varfærnisástæðum.