Samningar hafa náðst á milli Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ), Hildu ehf. sem er dótturfélag ESÍ, Dróma hf. (eignasafn SPRON og Frjálsa) og Arion banka hf. um yfirtöku ESÍ/Hildu á ákveðnum eignum og skuldum Dróma og uppgjöri á kröfu Arion banka á Dróma. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands.

Þar segir einnig að skuld Dróma við Arion banka, sem í upphafi var tæpir 100 milljarðar króna, sé komin til vegna ákvörðunar FME, frá 21. mars 2009, um að færa innlánsskuldbindingar SPRON yfir til Arion banka. Eignir SPRON, þ.m.t. útlán, voru settar í sérstakt félag, Dróma, og veðsettar Arion banka til tryggingar innlánsskuldinni. Skuldin greiðist að fullu upp með þeim eignum, m.a. einstaklingslánum Dróma og Hildu. Hilda mun eignast fyrirtækjalán og fullnustueignir Dróma. Samningarnir fela það í sér að ekki reynir á ábyrgð ríkissjóðs. Ennfremur flýta samningarnir fyrir lokum á slitameðferð SPRON. Afhending eigna samkvæmt samningunum mun eiga sér stað á næstu vikum.