Mál Dróma gegn fimm fyrrverandi stjórnendum Kaupþings var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku. Málið er komið til vegna innheimtu skuldar vegna jarðakaupa fimmmenninganna í Borgarfirði.

Um þetta er fjallað í nýjasta tölublaði Skessuhorns en einstaklingarnir fimm eru Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ingólfur Helgason, Steingrímur P. Kárason og Magnús Guðmundsson. Þá er félögunum  Hvítsstaðir ehf. og Langárfossi ehf. einnig stefnt. Langárfoss er í eigu Hvítsstaða sem síðan er í eigu fyrrnefndra einstaklinga.

Forsaga málsins er sú að árið 2003 keyptu Hvítsstaðir samnefnda jörð og fleiri jarðir við Langá á Mýrum. Langárforss keypti ári síðar samnefnda jörð en öllum þessum jörðum fylgdu talsverð laxveiðiréttindi. Kaupin voru fjármögnuð með lánum frá Spron og Sparisjóði Mýrasýslu. Þar voru um að ræða fimm ára afborgunarlaus lán (kúlulán) upp á um 400 milljónir króna. Lánin voru veitt í japönskum jenum og hækkuðu umtalsvert líkt og önnur lán við gengisfall krónunnar.

Upphaflega átti að greiða lánin árið 2010 en þau voru endurfjármögnuð árið 2008 og þá með gjalddaga árið 2013. Lánin gengu síðan inn í Dróma eftir fall fyrrnefndra fjármálafyrirtækja og eftir því sem fram kemur í umfjöllun Skessuhorn hefur ekki verið staðið við vaxtagreiðslur af lánunum.