Í uppgjöri Arion banka fyrir síðasta ár, sem birtist fyrir skömmu, kemur fram að bankinn hafi orðið að afskrifa 3,5 milljarða króna, auk vaxtataps upp á 750 milljónir króna, af svokölluðu Drómaskuldabréfi. Ástæðan er sögð vera úrskurður Fjármálaeftirlitsins í febrúar sl. og segir að bankinn muni róa að því öllum árum að fá þessum úrskurði hnekkt. Frá FME fengust þau svör að eftirlitið hefði verið að úrskurða í deilumáli á milli Arion banka og Dróma, sem er skilanefnd Spron, en umrætt skuldabréf fékk Arion banki við yfirtöku á innlánum Spron þegar sjóðurinn féll á sínum tíma og er það með veði í öllum eignum Spron.

Í ákvörðun FME kemur fram að eftirlitið hafi úrskurðarvald í deilumálum á milli Arion og Dróma en aðilarnir vísuðu málinu til FME. Að sögn Iðu Brár Benediktsdóttur, forstöðumanns Samskiptasviðs Arion banka, er skuldabréfið tilkomið vegna þess að Arion banki tók yfir innistæðuskuldbingar vegna Spron samkvæmt ákvörðun FME í mars 2009 án þess að eignir Spron fylgdu með. Upphaflega vaxtaálagið var ákveðið af FME. Drómi taldi vaxtaálag ofan á Reibor-vexti (þ.e. vexti á millibankamarkaði með krónur) vera of hátt en álagið var 175 punktar. „FME féllst sem sé á þessa skoðun Dróma og dæmdi félaginu í vil og því fellur þetta aukaálag niður, en Arion banki telur að ekki séu forsendur fyrir þessari lækkun,“ segir Iða Brá og segir rétt að benda á að greiðslur af skuldabréfinu séu óreglulegar og tengdar greiðslum af lánasafni Dróma.