Tæknifyrirtækið Dropbox sem þróar og rekur samnefnda gagnageymslu á netinu er metið á átta milljarða dala, jafnvirði tæpra 970 milljarða íslenskra króna, samkvæmt umfjöllun Bloomberg-fréttaveitunnar, sem fjallar um fjármögnun fyrirtækisins. Dropbox var stofnað af tveimur rétt rúmlega tvítugum vinum árið 2007. Drew Houston, annar stofnenda fyrirtækisins og forstjóri þess, varð þrítugur á árinu.

Bloomberg segir að stjórnendur Dropbox vinni nú að því að afla fyrirtækinu frekara fjármagns, 250 milljóna dala, og fram komi í lýsingu fjármögnunarinnar verðmat á fyrirtækinu. Átta milljarða dala verðmiði er tvöfalt hærri en þegar hluthafar bættust síðast í hóp Dropbox í október árið 2011. Á meðal hluthafa Dropbox er bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Sequoia Capital sem nýverið keypti hlut í Plain Vanilla, og rokkhundarnir Bono og The Edge úr írsku hljómsveitinni U2.

Bloomberg gefur ekkert uppi um tekjur Dropbox að öðru leyti en því að þær nemi hundruð milljóna dala og sé það 20-földun síðan árið 2010.