Gríska ríkið greiddi til baka 458 milljónir evra lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á fimmtudag en ekki er mikið aflögu í ríkissjóði landsins eftir greiðsluna. Því er þrautagöngu Grikkja hvergi nærri lokið. Í maí eru tveir gjalddagar á AGS lánum og samanlagt nema þeir 950 milljónum evra, auk þess sem ríkissjóður þarf að standa skil á um 2,4 milljörðum evra í launa- og eftirlaunagreiðslur.

Þetta gætu reynst stærri bitar fyrir gríska ríkið en það getur torgað. Sjóðir þess verða því sem næst tæmdir eftir afborgunina í dag og það getur illa náð í fjármagn á markaði. Tekið hefur verið fyrir það af evrópska seðlabankanum að ríkissjóður selji grískum bönkum ríkisvíxla, því seðlabankinn telur áhættu bankanna tengda grískum ríkisskuldabréfum ekki mega verða meiri en hún er. Þá hafa erlendir fjárfestar fæstir viljað koma nálægt grískum ríkisskuldabréfum vegna pólitískrar áhættu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .