Yfirvöld í Dubai hafa með skuldabréfaútgáfu fengið um 10 milljarða dala fyrirgreiðslu frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum til að mæta lausafjárvanda ríkisins. Skuldabréfin eru gefin út til fimm ára og bera 4% vexti.

Reuters fréttastofan greinir frá því að yfirvöld í Dubai muni nýta stærsta hluta fjármagnsins til að greiða upp aðrar skuldir sem stofnað var til vegna mikilla framkvæmda á vegum hins opinbera.

Eftir að þetta var tilkynnti í morgun ruku hlutabréfamarkaðir upp að meðaltali um 8% en Dubai hefur ekki farið varhluta af fjármálakrísunni og hefur verið í erfiðleikum með endurfjármögnun vegna lausafjárskorts.

Það er algeng mýta að halda að Dubai reiði sig á olíuframleiðslu eins og svo önnur arabaríki í kring. Því fer þó fjarri og en lítið er um olíulindir í ríkinu og framleiðslan í raun sáralítil. Hins vegar eru Sameinuðu arabísku furstadæmin einn af lykilolíuframleiðendum á svæðinu en Dubai hefur að mestu leyti treyst á fjármálakerfið sem grunnstoð ríkisins auk ferðaþjónustu.