Andrzej Duda forseti Póllands hlaut í gær naumlega endurkjör í seinni lotu forsetakosninga gegn Rafal Trzaskowski. Duda – sem þykir íhaldssamur og styður þjóðernissinnaða stjórnarflokkinn Lög og réttlæti – hlaut 51,2% atkvæða. Hinn frjálslyndi Trzaskowski, borgarstjóri Varsjár, höfuðborgar og stærstu borgar Póllands, hlaut 48,8%.

Sigurinn er sá naumasti síðan forsetakosningar hófust í Póllandi við fall Sovétríkjanna um 1990, en um 99,9% atkvæða hafa verið talin. Kjörsókn var 68,2%, svo til sú sama og árið 1995, sem var sú mesta í sögunni.

Búist er við að sigur Duda leiði til frekari breytinga á löggjafarvaldinu, en slíkar breytingar hafa verið afar umdeildar, ásamt áframhaldandi andstöðu við fóstureyðingar og réttindi samkynhneigðra og hinsegin fólks.

Duda lét meðal annars þau ummæli falla í kosningabaráttunni að hinsegin réttindi væru „hættulegri hugmyndafræði en kommúnismi“, og hlaut mikla gagnrýni fyrir.

Borgarfulltrúinn Pawel Bartoszek greindi frá því í facebook-færslu í morgun að meðal Pólverja á Íslandi hefðu um 20% kosið Duda, en 80% Trzaskowski.

Umfjöllun BBC .