Duesseldorfer Hypothekenbank AG, þýskur veðlánabanki í eigu hins opinbera, hefur verið bjargað frá gjaldþroti af hópi þýskra bankastofnana.

Þetta er í fimmta skipti sem þýskum banka er veitt neyðaraðstoð frá því að markaðurinn með fjármálagjörninga í tengslum við bandarísk undirmálslán hrundi síðasta sumar.

Þýsku bankasamtökin BdB keyptu Dusseldorfer Hypo af Schuppli fjölskyldunni og áforma samtökin að selja bankann sem allra fyrst til nýs eigenda, að því er fram kemur í tilkynningu.

Yfirtakan mun tryggja að bankinn, sem hefur efnahagsreikning upp á 26,7 milljarða evra, geti haldið áfram að innleysa til sín veðskuldabréf (þ. Pfandbrief), sem eru sérvarinn skuldabréf, tryggð með veði í fasteign og eru stíf skilyrði fyrir útgáfu bréfanna og allri umsjá.

„Þetta eru frekar stórbrotnar aðgerðir,” hefur Bloomberg-fréttaveitan eftir Dirk Becker, sérfræðingi hjá Lanbsanki Kepler í Frankfurt.

Becker segir að þýskir bankar njóti enn þess ávinnings að geta sótt sér fjármagn með útgáfu sérstakra veðskuldabréfa. Af þeim sökum hafi þessi björgunaraðgerð verið nauðsynleg til að vernda og tryggja stöðugleika á þessum markaði.

Afskriftir upp á 8,5 milljónir evra (um 1 milljarður ísl.króna) og minnkandi eftirspurn eftir opinberri fjármögnun varð til þess að þurrka út næstum allan hagnað Dusseldorfer Hypo á síðasta ári. Schuppli fjölskyldan þurfti í kjölfarið að bregðast við með 150 milljóna evra fjármagnsinnspýtingu.

Lánsfjárkreppan á fjármálamörkuðum hefur nú þegar knúið fram fyrirhugaða sölu á þýsku bönkunum Landesbank Sachsen og IKB Deutsche Industriebank.

Stærstu fjármálastofnanir heims hafa fram til þess afskrifað hjá sér eignir fyrir um 290 milljarða Bandaríkjadala frá því síðasta sumar.