*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 28. október 2019 13:21

Dufl hneppti gulleggið

Sigurvegarar keppninnar var teymið Dufl sem hefur hannað bættan staðsetningarbúnað fyrir baujur á hafi úti.

Ritstjórn
Teymið Dufl sigraði Gulleggið, frumkvöðlakeppni Icelandic Startups.
Aðsend mynd

Gulleggið, frumkvöðlakkeppni Icelandic Startups, var veitt síðasta föstudagskvöld að loknum kynningum 10 efstu liðanna á viðskiptahugmyndum sínum og var það teymið Dufl sem hneppti Gulleggið að þessu sinni. 

Sigurteymið hannaði bættan staðsetningarbúnað fyrir baujur á hafi úti. Meðlimir hópsins eru allir nemendur í Háskólanum í Reykjavík, en einn meðlimur hópsins hefur unnið sem sjómaður á línu- og netverkskipum og frá honum er hugmyndin komin. Samkvæmt viðskiptahugmyndinni gefst sjávarútvegsfyrirtækjum kostur á að gerast áskrifendur hjá Dufli sem myndi þá sjá um alla þjónustu varðandi búnaðinn.  

Þetta er þrettánda sinn sem Icelandic Startups stendur fyrir frumkvöðlakeppninni og hlýtur sigurvegari keppninnar í ár, auk verðlaunagripsins, 1,5 milljónum króna. Alls bárust 150 hugmyndir í keppnina í ár en af þeim kepptu tíu til úrslita.

Einnig voru veitt sérverðlaun í fjórum flokkum; sjálfbærni og grænar lausnir, heilsu og heilbrigði, fyrir vöruna og loks fyrir bestu stafrænu lausnina. 

Hneppti Dufl einnig verðlaun fyrir vöru ársins og fær að launum ráðgjafatíma hjá Marel og samtalsleit einkaleyfa frá Hugverkastofnun.

Teymið GreenBytes hlaut verðlaun fyrir græna lausn fyrir hugbúnaðarlausn sem nýtir sölugögn með vitvélatækni (e. machine learning) til að minnka matarsóun og auka framlegð veitingastaða. Að launum fékk teymið 150 þúsund krónur frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og ráðgjafatíma hjá KPMG. 

Teymið Örmælir hlaut heilsu verðlaun fyrir mælitæki sem mælir mjög lítið vökvamagn snertilaust og er notað við rannsóknir í heilbrigðisvísindum. Fékk teymið að launum ráðgjafatíma hjá Össuri, 300.000 krónur frá Landsbankanum og samtalsleit einkaleyfa frá Hugverkastofunni.

Þá fékk teymið Statum verðlaun fyrir bestu stafrænu lausnina. Statum er gagnvirkur dómsalur í sýndarveruleika til þess að undirbúa þolendur kynferðsofbeldis að fara fyrir dóm. Að launum fékk teymið ráðgjöf hjá Origo og 10 tíma lögfræðiráðgjöf hjá ADVEL lögmönnum.

Loks hlaut teymið á bakvið Vegangerðina flest atkvæði í kosningunni Val fólksins sem fór fram á vefsvæði RÚV.  Vegangerðin framleiðir íslenskan grænan próteingjafa fyrir heimili og veitingastaði.

Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um teymin tíu sem komust í úrslit Gulleggsins hér og hér.