„Það er bara mjög mikilvægt að þjóðin átti sig á því að það er ákveðin óvissa í gangi, það er ekki hægt að lofa hlutum. Verkalýðsfélögin verða að átta sig á því að það er ekki þannig að íslenska þjóðin geti nokkurn tímann orðið áskrifandi að einhverjum kaupmætti og lífskjörum sem koma til þín alveg bara sísvona; að þú getir bara setið við borð og samið við Halldór Benjamín eða eitthvað álíka og þá bara fáirðu kaupmátt. Að þú getir bara farið í fjölmiðla og rifið kjaft og þá bara komi kaupmátturinn til þín. Þetta er ekki þannig,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á árlegum peningamálafundi Viðskiptaráðs í morgun um yfirstandandi kjaraviðræður.

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í tíunda skiptið í röð í gærmorgun og standa þeir nú í 6%. Fyrir það hefur hann hlotið nokkra gagnrýni, ekki síst frá aðilum vinnumarkaðarins.

„Það getur allur fjandinn komið upp“

Ásgeir kom aftur inn á óvissu undir lok fundarins og þá stöðu sem hún setji Seðlabankann í.

„Það sem við erum að fara að gera er að eiga við þá stöðu sem er til staðar. Við vitum ekki hver fjandinn er að fara að koma upp á. Það eina sem við vitum er að við verðum að bregðast við. Við erum með tækin, við erum með allt til að bregðast við. Það sem við viljum er bara að þessir aðilar átti sig á því að það getur allur fjandinn komið upp. Við erum búin að vera á þessari eyju hérna í einhver 1.100 ár núna, það er bara aldrei hægt að lofa hlutum fyrirfram. Hvað gerist? Við getum ekki lofað einhverjum kaupmætti nema hann sé studdur með einhverju.“

Hann tók í kjölfarið að því er virtist vel í þá hugmynd sem upp hefur komið að samið verði til skamms tíma á vinnumarkaði í þetta sinn á meðan óvissa ríki um verðlagsþróun næstu missera.

„Það vonandi gefur þá seðlabankanum færi á að ná verðbólgunni niður. Bara ekki kvarta yfir því hvernig við förum að því,“ sagði Ásgeir og var nokkuð heitt í hamsi, en endaði þó á léttum og jákvæðum nótum.

„Íslenska þjóðin hefur alla burði til að takast á við þessa stöðu, ef hún bara gerir sér grein fyrir því að það er ekkert öryggi í heiminum, og að það verða erfiðar ákvarðanir.“

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 4.495 kr. á mánuði