Orkuveita Reykjavíkur veitti í dag eigendum sex húseigna á höfuðborgarsvæðinu viðurkenningar fyrir glæsilegar skreytingar á eignum sínum. Við afhendinguna, sem fram fór í höfuðstöðvum Orkuveitunnar, hafði Hjörleifur B. Kvaran forstjóri það sérstaklega á orði að aðdáunarvert væri hversu glæsilegar skreytingarnar hefðu verið þrátt fyrir einkar rysjótta aðventu með tíðum stormum.

Í tilkynningu vegna viðurkenningarinnar segir að verðlaunaskreytingarnar í ár eru af ýmsum toga; mislitar, einlitar, umfangsmiklar og aðrar smærri í sniðum, líkneski einkenna eina og bifreið á meðal hinna skreyttu eigna. Þriggja manna dómnefnd starfsfólks Orkuveitunnar fékk fjölda ábendinga um fallega skreyttar húseignir og fór víða um veitusvæði fyrirtækisins í störfum sínum. Niðurstaða hennar varð þessi, en veitt eru verðlaun fyrir eina eign í hverju sveitarfélagi þar sem Orkuveitan sér um dreifingu rafmagns.

Verðlaunahafar og umsögn

Vesturgata 115 B, Akranesi - Bjarni Gunnarsson og Olga Lárusdóttir: Smekkleg notkun á mislitum jólaljósum upp á gamla mátann.

Sæbraut 21, Seltjarnarnesi - Sighvatur Bjarnason og Ragnhildur Gottskálksdóttir : Skemmtileg skreyting í einum lit og alls hófs gætt

Merkjateigur 1, Mosfellsbæ - Baldvin Viggósson og Kristín Snorradóttir: Óvenjulega mikið af líkneskjum og fígúrum en þó ekki farið yfir nein mörk.

Bæjargil 36-44, Garðabæ - Raðhús, fjöldi eigenda: Skemmtilegt dæmi um samstarf íbúanna verður að smekklegri skreytingu á raðhúsalengju.

Laufásvegur 22, Reykjavík - Erlingur Gíslason og Brynja Benediktsdóttir: Einföld og glaðleg skreyting hentar vel á Skemmtihúsinu.

Dalvegur 22, Kópavogi - Teitur Jónasson ehf., hópferðabílar: Rútan frá Teiti Jónassyni hefur lengi vakið athygli vegfarenda.