Inga María Guðmundsdóttir, eigandi dúkkulísuvefsíðunnar Dress Up Games , hefur fengið samtals 163 milljónir króna greiddar út í arð af hagnaði fyrirtækisins síðastliðin þrjú ár. Þetta gera 54,3 milljónir króna að meðaltali á ári eða 4,5 milljónir króna að meðaltali á mánuði. Arðgreiðsla félagsins nam 36 milljónum króna á síðasta ári.

Inga María Guðmundsdóttir.
Inga María Guðmundsdóttir.
© Edwin Roald Rögnvaldsson (VB Mynd/Edwin)

Dress Up Games er að fullu í eigu Ingu Maríu sem er bókasafnsfræðingur og býr á Ísafirði. Þetta er tenglasíða sem gerir börnum kleift að finna tölvuleiki, svokallaða dúkkulísuleiki, og gengur út á að klæða persónum í föt.

Félag Ingu Maríu hagnaðist um rúmar 48,8 milljónir króna á síðasta ári. Þetta er talsverður samdráttur á milli ára en hagnaðurinn nam 88,3 milljónum króna árið 2010. Hagnaður félagsins fyrir afskriftir í fyrra nam 53,1 milljón króna samanborið við 93,7 milljónir árið 2010.

Dúkkulísur eru ábatasamar

Svo virðist sem dúkkulísusíðan sé gullnáma. Félagið utan um reksturinn var stofnað árið 2007 og reksturinn reynst ábatasamur.

Eignir Dress Up Games námu fyrsta árið tæpum 26,3 milljónum króna en voru um tífalt hærri á síðasta ári, tæpar 258 milljónir króna. Þar af námu innstæður í bönkum og sjóðum 38,1 milljón króna. Aðrar eignir eru markaðsverðbréf upp á 205 milljónir króna.

Eigið fé félagsins nam í fyrra 192 milljónum króna, sem er tæplega 12,9 milljónum meira en í lok árs 2010. Af eigin fé félagsins nam óráðstafað eigið fé sömuleiðis 192 milljónum króna. Til samanburðar nam eigið fé Dress Up Games 21,4 milljónum króna eftir fyrsta rekstrarárið fyrir fimm árum.

Á móti eignum námu skuldir Dress Up Games 65,2 milljónum króna í fyrra samanborið við 79 milljónir króna í lok árs 2010. Skuldirnar eru að langmestu leyti viðskiptaskuldir, sem námu tæpum 50 milljónum króna á síðasta ári.