*

mánudagur, 17. júní 2019
Innlent 27. október 2017 13:01

Dulin skattastefna

Gera má ráð fyrir því að stór hluti þeirra breytinga sem munu verða á skattheimtu á næsta kjörtímabili hafi ekki verið kynntur nægilega vel fyrir kjósendum.

Snorri Páll Gunnarsson

Af þeim sjö flokkum sem mælast með yfir 5% fylgi í skoðanakönnunum síðustu vikna hafa aðeins þrír þeirra skýra skattastefnu. Það eru Sjálfstæðisflokkurinn, Píratar og Framsóknarflokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru með skýra stefnu til lækkunar á sköttum. Viðreisn er með fremur óskýra stefnu um óbreytta skatta. Þá eru Samfylkingin og Vinstri græn með óskýra stefnu um hækkun skatta, en þar að auki eru Píratar með skýra stefnu til að hækka skatta. Miðflokkurinn er með óskýrustu skattastefnuna og ekki er unnt að álykta um það hvort flokkurinn stefnir að því að hækka eða lækka skatta.

Þetta er niðurstaða samantektar Viðskiptaráðs Íslands á skattastefnu stjórnmálaflokkanna, en Viðskiptaráð telur gagnsæi mjög ábótavant hjá nokkrum flokkum.

Töluverður munur er á gagnsæi stjórnmálaflokkanna í skattamálum og má því gera ráð fyrir því að stór hluti þeirra breytinga sem munu verða á skattheimtu á næsta kjörtímabili hafi ekki verið kynntur nægilega vel fyrir kjósendum, sem ganga til kjörborðsins á laugardaginn. Samkvæmt könnunum Mask­ínu fyrir ári töldu 74% kjósenda skattamál skipta miklu máli í kosningabaráttunni og töldu 65% skatta sína vera nokkuð of háa eða allt of háa.

Viðskiptaráð telur alþingiskosningarnar 28. október snúast fyrst og fremst um ríkisútgjöld og forgangsröðun þeirra. Flokkarnir hafa skýra stefnu á útgjaldahliðinni og vilja almennt auka ríkisútgjöld, en eru misskýrir um það hvað­ an peningarnir eiga að koma. Sérstaklega séu þeir óskýrir hvað skatta varðar, en skattar mynda bróðurpartinn af tekjum ríkissjóðs og voru til að mynda tæplega 78% af heildartekjum ríkissjóðs í fyrra.

Þá má leiða líkur að því að stórfelld aukning ríkisútgjalda – svo sem til heilbrigðiskerfisins, velferð­ar- og húsnæðismála, innviða og menntakerfisins – geti einungis orðið að veruleika með auknum tekjum af skattheimtu. Arðgreiðslur ríkisfyrirtækja og einskiptistekjur sem kynnu að koma til með lækkun eigin fjár bankanna eða sölu þeirra duga tæplega fyrir loforðaflauminum.

Í greiningu Viðskiptaráðs, sem byggir á upplýsingum frá vefsíðum flokkanna, var horft til helstu tegunda skattheimtu: á vinnuframlag, sparnað, neyslu og fyrirtækjarekstur. Umfang skattheimtu eða raunhæfni var ekki metin, heldur einungis hvort skattastefna viðkomandi flokks væri skýr og hvort hún væri til hækkunar eða lækkunar. Einnig eru nokkrar viðbætur Viðskiptablaðsins. Prósentutalan sem kemur hér á eftir heiti hvers stjórnmálaflokks er fylgi viðkomandi flokks samkvæmt nýjustu könnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis sem gerð var 23.-24. október.

Sjálfstæðisflokkurinn (24,1%)

 • Vill halda sköttum í lágmarki
 • Draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins og bótakerfisins
 • Skattlagning og bætur miðist við kjör einstaklinga en ekki sambúðarform eða fjölskyldustöðu
 • Lækkun tekjuskatts
 • Lækkun neðra skattþreps í 35%
 • Lækkun tryggingagjalds
 • Lækkun fjármagnstekjuskatts og skattlagning raunávöxtunar fjármagnstekna fremur en nafnávöxtunar 
 • Lækkun erfðafjárskatts í 5% og svo afnám skattsins 
 • Einföldun virðisaukaskattskerfisins með fækkun undanþága 
 • Afnám lágmarksútsvars sveitarfélaga 
 • Afnám tolla, t.d. á matvælum 
 • Meiri og gegnsærri upplýsingar um opinberar álögur á launa- og álagningarseðlum 
 • Ívilnanir og afslættir af opinberum gjöldum óþarfi 
 • Skattar á fjármálafyrirtæki verði almennir og án undanþága

Vinstri græn (19,2%)

 • Vill að skattlagning stuðli að jöfnuði 
 • Endurskoðun skattkerfis í samráði við aðila vinnumarkaðarins og hagsmunasamtök aldraðra, öryrkja og námsmanna 
 • Skattleysismörk miðist við lágmarksframfærslu 
 • Upptaka auðlegðarskatts (1-1,5% og hátt almennt fríeignamark) 
 • Fjármagnstekjuskattur á skuldabréfaeign, tekjur af vöxtum, leigu af húsnæði og hagnað af sölu fasteigna og verðbréfa, annaðhvort með þrepaskiptingu eða hækkun skattleysismarka á háar fjármagnstekjur þannig að þær verði skattlagðar sem almennar launatekjur 
 • Sérstakt hátekjuþrep í tekjuskattskerfinu á „ofurtekjum“ (t.d. kaupaukum) 
 • Persónuafsláttur fylgi þróun verðlags 
 • Tekjulægstu hópar samfélagsins (undir markmiðum um grunnframfærslu) verði undir skattleysismörkum 
 • Skattar á óholla mat- og drykkjarvöru og vöruflokkar sem innihalda sykraða gosdrykki og sykraða matvöru færðir í hærra virðisaukaskattsþrep 
 • Lækkun tryggingagjalds í skrefum 
 • Hækkun á kolefnisgjöldum, sköttum á bensín, dísilolíu og olíu til upphitunar og grænum sköttum, auk afnáms á undanþágum til kolefnisgjalda til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og mengun 
 • Grænar skattaívilnanir, t.d. að nýfjárfestingar uppfylli loftslagsmarkmið 
 • Auðlindagjald sem rennur í sameiginlega sjóði samfélagsins

Samfylkingin (14,3%)

 • Vill að skattlagning stuðli að jöfnuði 
 • Þrepaskiptur tekjuskattur. Skoða þarf hvort ástæða sé til að auka bilið milli skattþrepa og fjölga þeim 
 • Upptaka hátekjuskatts 
 • Aukin skattbyrði á tekjuhærri hópa og stóreignafólk 
 • Lækkun tryggingagjalds 
 • Afnám bankaskatts 
 • Afmörkun tekna og gjalda vegna takmarkaðra náttúrugæða og auðlinda í þjóðareigu (m.a. veiðigjalds og tekna af orkulindum) á sérstökum auðlindareikningi sem verði hluti ríkisreiknings þannig að auðlindarentan verði sýnileg
 • Auðlindagjald á raforkufyrirtæki, hitaveitur og útgerðir 

Miðflokkurinn (9,6%)

 • Endurgreiðsla virðisaukaskatts af byggingu húsnæðis á kaldari svæðum 
 • Skattalegir hvatar 
 • Lækkun tryggingagjalds 
 • Niðurfelling virðisaukaskatts af lyfseðilsskyldum lyfjum 
 • Skattlagning sparnaðar við inngreiðslu í lífeyrissjóði 

Píratar (9,4%)

 • Vill að skattheimta standi undir grunnstoðum. Það er ekki sjálfstætt markmið Pírata að hækka eða lækka skatta 
 • Hækkun persónuafsláttar um 7 þúsund krónur á mánuði 
 • Hækkun tekjuskatts á fyrirtæki 
 • Lögfesta reglur sem takmarka þunna fjármögnun fyrirtækja 
 • Hækkun fjármagnstekjuskatts (úr 20% í 30%) 
 • Stóriðja og stærri fyrirtæki borgi fullan tekjuskatt 
 • Hækkun gistináttagjalds, sem verði prósentuhlutfall af verði gistingar og renni til viðkomandi sveitarfélags 
 • Hækkun veiðigjalds fyrir veiðiheimildir 
 • Lægri olíugjöld, áfengisgjöld og tóbaksgjöld

Viðreisn (7,5%)

 • Vill hóflega skattlagningu 
 • Endurskoðun á skattkerfinu til að auka skilvirkni þess og fækka undanþágum og íþyngjandi reglum 
 • Lækkun tryggingagjalds í skrefum 
 • Lækkun bankaskatts 
 • Markaðstengt auðlindagjald í sjávarútvegi 
 • Markaðsverð greitt fyrir nýtingu orkuauðlinda 
 • Afgjald í ferðaþjónustu til að byggja upp innviði 
 • Heimild til að stofna skattfrjálsa sparnaðarreikninga í aðdraganda íbúðarkaupa 
 • Einföldun skattlagningar og skattskila fyrir einyrkja og smáfyrirtæki 
 • Hækkun á lágmarki fyrir virðisaukaskattskil í 3 milljónir

Framsóknarflokkurinn (6,4%)

 • Endurskoðun á skattkerfinu til að létta á skattbyrði lágtekjuhópa, m.a. með hækkun á persónuafslætti 
 • Efling skattaeftirlits til að draga úr svartri atvinnustarfsemi og skattaundanskotum 
 • Mótfallinn vegtollum 
 • Mótfallinn hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu 
 • Lág tekjuskattsprósenta á rekstraraðila 
 • Lækkun tryggingagjalds sérstaklega á lítil og meðalstór fyrirtæki 
 • Endurskoðun erfðafjárskattsins 
 • Afnám bókaskatts 
 • Hátekjuskattur á „ofurlaun“ og „ofurbónusa“ 
 • Niðurfelling á virðisaukaskatti á föt og skófatnaði fyrir börn
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is