Hagvöxtur var 6,4% á fyrri helmingi ársins miðað við sama tímabil fyrir ári samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands . Það vel umfram spár greiningaraðila sem spá 2,6-4,1% hagvexti fyrir árið í heild.

Greiningardeild Arion banka segir tíðindin til marks um „dúndrandi hagvöxt“ og segir ljóst megi vera að hagvöxtur verði meiri en sá 3% hagvöxtur sem bankinn hafi spáð fyrir þetta ár. Helst komi á óvart hve mikill vöxtur fjárfestingar hafi verið og að innflutningur hafi dregist saman.

Hagfræðideild Landsbankans telur líklegt að hægjast muni á hagvexti á síðari helmingi þessa árs og hann endi nær spá Landsbankans um 4,1% hagvöxt fyrir árið í heild. Landsbankinn segir vöxtinn fyrst og fremst drifinn áfram af einkaneyslu og fjárfestingu. „Eitt af athyglisverðum einkennum núverandi uppsveiflu er að vöxtur einkaneyslu hefur verið minni en vöxtur kaupmáttar yfir nær allt tímabilið. Það er fyrst nú á síðustu ársfjórðungum sem vöxtur einkaneyslu hefur reynst meiri en aukning kaupmáttar launa,“ segir í greiningu hagfræðideildar Landsbankans.

Greiningadeildirnar eru almennt samhljóða um að hægjast muni nokkuð á hagvexti hér á landi næstu árin en var 4% árið 2017 og 7,4% árið 2016.

Fjárfesting á fyrri helmingi ársins jókst um 7,6% milli ára. Vöxtur fjárfestingar var borinn uppi af íbúðafjárfestingu sem jókst um 24,2% milli ára. Á sama tíma jókst fjárfesting atvinnuveganna um 5,6% og fjárfesting hins opinbera um 0,2%. Einkaneysla jókst um 5,3% á fyrri helmingi ársins miðað við sama tímabil í fyrra og samneysla um 3,1%. Nokkuð hefur þó hægt á vexti einkaneyslu sem náði hámarki í 9,8% vexti á öðrum ársfjórðungi síðasta árs. Á fyrri helmingi ársins jókst innflutningur um 4,1% en útflutningur um 4,5. Sé einungis horft á annan ársfjórðung dróst innflutningur saman um 0,4% en útflutningur jókst um 0,8%.

Búast við mjúkri lendingu

Greiningardeild Íslandsbanka telur tölur Hagstofunnar að mörgu leyti jákvæðari en vænta mátti. „Einkaneysluvöxtur er að róast, jafnvægi utanríkisviðskipta er meira en ætla mætti miðað við hátt raungengi og það hversu uppsveiflan hefur staðið lengi. Þá veit vöxtur íbúðafjárfestingar á gott varðandi húsnæðismarkað á komandi fjórðungum. Loks má nefna að hóflegur vöxtur atvinnuvegafjárfestingar ætti að vera til marks um að hætta á offjárfestingu í vaxtargreinum á borð við ferðaþjónustu sé minni en ella,“ segir í greiningu Íslandsbanka.

Flest bendi til þess að íslenskt hagkerfi leiti nú jafnvægis eftir myndarlega og langa uppsveiflu. „Við eigum von á að hagvöxtur verði talsvert hægari á seinni hluta ársins vegna hægari vaxtar einkaneyslu, neikvæðara framlags utanríkisviðskipta og líklega nokkurs samdráttar í fjárfestingu atvinnuvega. Engu að síður verður hagvöxtur hér á landi allmyndarlegur í ár að okkar mati, og horfur eru enn sem fyrr á að hagkerfið lendi með mýkra mótinu eftir undangengið vaxtarskeið,“ segir í greiningu Íslandsbanka.