Bandaríska kaffihúsakeðjan Dunkin‘ Donuts hefur tilkynnt að hún muni opna þrjátíu veitingastaði í Noregi innan sjö ára. E24 greinir frá þessu.

Þannig heldur fyrirtækið áfram innreið sinni á markað Norðurlandanna, en nýlega var greint frá því að sextán veitingastaðir keðjunnar yrðu opnaðir hér á landi innan fimm ára. Flestir þeirra verða á höfuðborgarsvæðinu.

Dunkin‘ Donuts verður fyrsta alþjóðlega kaffihúsakeðjan til að opna staði hér á landi, en í Noregi mun hún finna fyrir keðjuna Starbucks sem opnaði sitt fyrsta kaffihús í landinu fyrir þremur árum síðan. Er því ljóst að samkeppnin á Noregsmarkaði verður hörð á næstunni.