Bandaríska kleinuhringjasamsteypan Dunkin' Donuts neyddist til að afskrifa vænan hluta virðis japanskra útibúa sinna á lokaársfjórðungi 2015. Um 7 milljarðar króna voru skrifaðir af virði útibúa félagsins í Japan, landi rísandi sólar. Fyrirtækið á 11.700 kleinuhringjastaði um heim allan, en einnig eru 7.600 Baskin-Robbins ísbúðir í eigu samsteypunnar.

Hins vegar, ef þessi einskiptisliður er greindur frá afgangi afkomu félagsins, þá skilaði það hagnaði sem nam um hálfum Bandaríkjadal á hvern hlut.  Það er nálægt því sem félagið hagnaðist um á sama fjórðungi ársins 2014, en þá nam hagnaður þess rúmum 52 milljónum Bandaríkjadala - eða 6,7 milljörðum íslenskra króna.

Þá dróst sala fyrirtækisins saman um 0,8%, en það má skýra einna helst vegna þess að verð söluvarnings þess var hækkað í kjölfar launahækkana, en verð söluvarningsins var að sögn hækkað að meðaltali um 3%.

Sala dróst einnig saman vegna þess að McDonald’s byrjaði að selja morgunverðarmatseðil sinn daginn langan - eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrir skömmu síðan. Samkeppni milli félaganna hefur því aukist umtalsvert.