Tölvuleikurinn DUST 514 verður formlega gefinn út fjórtánda maí næstkomandi, en hann hefur verið í opinni prufukeyrslu frá því í janúar. Frá þessu var greint á spilarahátíð CCP í dag, en DUST er annar leikurinn sem fyrirtækið gefur út. Fyrir tíu árum var EVE Online gefinn út og hefur verið haldið upp á tíu ára afmælið á hátíðinni.

Dagsetningin er ekki valin að ástæðulausu, því samkvæmt bandarísku hefðinni er hún 5.14 í tölustöfum.

Eins og fram hefur komið áður er leikurinn ókeypis og hægt er að hlaða honum niður á Playstation netinu. Hins vegar er hægt að borga fyrir ýmsa aukahluti og þjónustu í leiknum.

Ný útgáfa af Hættuspili.
Ný útgáfa af Hættuspili.

Í lokafyrirlestri hátíðarinnar kom einnig fram að gefa á út á ný Hættuspil, borðspilið sem var það fyrsta sem CCP setti á markað á síðasta áratug tuttugustu aldarinnar. Spilið seldist vel á Íslandi og var andvirðið notað til að fjármagna hönnun EVE Online. Hættuspil verður gefið út á ensku, undir nafninu Danger Game, og verður Jón Gnarr, sem var á spilakassanum á sínum tíma, í sínu gamalkunna drag-dressi utan á þessum nýja kassa.

Fleira var kynnt í fyrirlestrinum. CCP hefur gert samning við fataframleiðandann Musterbrand um að hanna og selja fatnað, sem byggður er á fatnaði sem persónur í EVE Online klæðast. Fatnaður er þegar kominn í sölu í netverslun CCP .

Þá verður í ár gefin út teiknimyndabók í samstarfi við teiknimyndabókaframleiðandann Dark Horse Comics. Í bókinni verða fjórar sögur, sem byggðar eru á raunverulegum sögum frá spilurum leiksins. CCP hefur verið að safna slíkum sögum saman í tilefni af 10 ára afmælinu og á m.a. að nota þær í teiknimyndabókinni.