Rafíþróttafélagið Dusty, sem hingað til hefur verið hugsað sem keppnislið í rafíþróttum, ætlar að breikka tekjumódelið og bjóða upp á æfingar fyrir yngra fólk, í samstarfi við íslenska frumkvöðlafyrirtækið Esports Coaching Academy.

Þá ætlar Dusty að setja meira púður í streymismiðilinn Twitch, sem er orðinn mikill áhrifavaldur í markaðssetningu í rafíþróttum í dag. Ásbjörn Daníel Ásbjörnsson, stofnandi félagsins, segir í samtali við Viðskiptablaðið að streymismiðlar Dusty og tengdra aðila verði komnir á fullt fyrri hluta næsta árs. Þá munu streymi og önnur efnissköpun á vegum Dusty einnig rata inn á Youtube síðu félagsins.

„Fólk sem fylgist með rafíþróttum og horfir á streymi hjá tölvuleikjaspilurum er ekki að nota sömu miðla og margir aðrir. Það les yfirleitt ekki blöðin eða horfir á línulega dagskrá og er almennt minna að nota Instagram og Facebook. En það er mjög virkt á miðlum eins og Twitch, Youtube og TikTok. Okkar sérstaða er að geta boðið fyrirtækjum upp á heildstæða og þróaða lausn á þessum miðlum með nákvæmri endurgjöf. Hingað til höfum við boðið okkar samstarfsaðilum mest megnis upp á að auglýsa á keppnistreyjum Dusty og á þessum „hefðbundnum miðlum“ félagsins. Nú ætlum við hins vegar alla leið með þetta.“

Ásbjörn segir að árið 2022 beri þess merki að vera ár breytinga hjá Dusty.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Ásbjörn segir að árið 2022 beri þess merki að vera ár breytinga hjá félaginu, en auk þess að ætla að byrja með yngri flokka starf og herja í auknum mæli á streymi hefur Dusty einnig tryggt sér söluumboð á leikjatölvum sem og öðrum varningi fyrir tölvuleikjaspilun hjá stórum erlendum leikjatölvuframleiðanda.

„Þegar við fengum fjárfesta inn í félagið um mitt ár 2022 var það markmiðið að selja þeim ákveðna sýn. Hefðu fjárfestarnir ekki komið inn hefðum við haldið áfram á þeirri braut sem við vorum á. Það er samt ekki gaman að vera alltaf bara í status quo. Maður vill sækja áfram, prófa eitthvað nýtt og sjá hversu langt maður getur tekið þetta.“

Nánar er fjallað um rafíþróttafélagið Dusty í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kemur út í fyrramálið.