Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte, lét rústa 68 bílum og 8 mótorhjólum, sem gerð höfðu verið upptæk sem smyglvarningur, á mánudag. Samanlagt virði ökutækjanna er talið hafa verið tæpar 600 milljónir króna, en bílarnir voru frá því að vera af nokkuð algengum tegundum, eins og BMW, upp í merki eins og Lamborghini.

Bílarnir voru hluti af um 800 bílum í heildina sem hafa verið gerðir upptækir nýlega af tollyfirvöldum.

Áður fyrr voru smyglaðir bílar sem gerðir voru upptækir seldir á uppboði og ágóðinn rann í ríkissjóð. Duterte hefur hinsvegar sagt að heldur láti hann eyðileggja bílana en að „ríkið hagnist á glæpum". Hann sagðist í ræðu áður en eyðileggingin fór fram vera að gera þetta „vegna þess að [hann yrði] að sýna heiminum að [Filippseyjar] væru raunhæfur staður til fjárfestinga og viðskipta."

Duterte hafði áður látið eyðileggja tugi bíla fyrir yfir 100 milljónir í febrúar.

Hér má sjá myndband af verknaðinum hjá Reuters.