Ólafur Garðar Halldórsson fékk hæstu einkunn sem gefin hefur verið úr BS námi í hagfræði við Hagfræðideild Háskóla Íslands, eða 9,33.

Er þetta hæsta einkunn frá því að BS námið hófst við skólann en Ólafur Garðar stefnir á doktorsnám. Hlaut hann verðlaun Hollvinafélags Viðskiptafræðideildar og Hagfræðideildar Háskóla Íslands fyrir vikið en þau nema 250.000 krónum og voru afhent við brautskráningu þann 12. júní sl.

Hefur Ólafur Garðar verið að kenna í Hagfræðideild með náminu en auk þess hefur hann verið umsjónarmaður með undirbúningsnámskeiði í stærðfræði fyrir meistaranema og hann hefur unnið hjá Hagfræðistofnun. Ólafur ætlar að taka sér ársfrí frá námi og ætlar að ná sér í enn frekari reynslu í hagfræði. Hann er meðhöfundur að tveimur hagfræðigreinum, bæði með Gylfa Zoega og Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur.