Jón Trausti Reynisson útgáfustjóri og Reynir Traustason ritstjóri DV voru í dag dæmdir til að greiða 800 þúsund krónur vegna meiðyrða í garð Hans Aðalsteins Helgasonar. Þar af eru 100 þúsund krónur sem þeir greiða í sekt í ríkissjóð, 200 þúsund í miskabætur og 500 þúsund í málskostnað.

Hans Aðalsteinn stefndi DV vegna ummæla í umfjöllun um fjársvik út úr Íbúðalánasjóði. Hans Aðalsteinn var dæmdur fyrir aðild sína að málinu. Hann var sagður vera í tygjum við Vítisengla og samkvæmt frásögn mbl.is af réttarhöldunum olli sú umfjöllun honum vandræðum. Sjö ummæli í fréttum DV voru dæmd dauð og ómerk.

Einnig var dæmt í málum Hilmars Þórs Leifssonar gegn feðgunum Reyni og Jóni Trausta, en feðgarnir voru sýknaðir. Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, lögmaður Hilmars Þórs, segir að þeim málum verði áfrýjað.

Í gær var DV dæmt fyrir meiðyrði í umfjöllun um Jón Þorstein Jónsson, fyrrverandi stjórnarformann Byrs.