DV ehf., útgáfufélag DV, skuldaði 81 milljón króna í lok síðasta árs. Helmingur skuldarinnar er við lánadrottna, um 23,9 milljónir króna var ógreidd staðgreiðsla og 10,3 milljónir voru vegna ógreidds tryggingagjalds.

Eignir félagsins voru á sama tíma metnar á 91,2 milljónir króna. Þar af voru viðskiptakröfur 43 milljónir króna, eða tæpur helmingur eigna félagsins. Þetta kemur fram í ársreikningi DV ehf. sem skilað var inn til ársreikningaskráar síðastliðinn mánudag. Ársreikningurinn er óendurskoðaður.

Gengur hratt á hlutaféð

DV ehf. var stofnað í byrjun síðasta árs og tók við rekstri DV 1. apríl 2010. Heildarhlutafé félagsins var í upphafi 63,6 milljónir króna. Ársreikningurinn nær því yfir níu síðustu mánuði þess árs. Á því tímabili tapaði DV 53,3 milljónum króna, eða sem nemur 84% af hlutafé þess. Eftirstandandi hlutafé í árslok 2010 var 10,2 milljónir króna.

Í maí síðastliðnum birti DV helstu upplýsingar um fjárhagslegt uppgjör sitt opinberlega. Þar kom fram að EBITDA (tap fyrir fjármagnskostnað og afskriftir) félagsins hefði verið neikvæð um 36 milljónir króna. Fjöldi áskrifenda hefði þó tæplega tvöfaldast á tímabilinu og fjöldi notenda að DV.is vaxið um 50 þúsund. Þá var sagt frá því að DV ehf. ætti enn óselt hlutafé frá því að það var sett á stofn og að hluthöfum og starfsmönnum hefði verið boðið hlutaféð til kaups. Þann 14. Maí hafði sá hópur skrifað sig fyrir 13,5 milljóna krónum að nafnvirði í auknu hlutafé.

Eigendahópur DV er mjög dreifður. Stærstu eigendur eru ritstjórinn Reynir Traustason (33%), Lilja Skaftadóttir (32%) og félagið Gagnsæi ehf. (16%). Alls voru stöðugildi hjá DV 43 í fyrra og félagið greiddi 168,3 milljónir króna í laun og launatengd gjöld.