Dagblaðið DV lagði í dag til 100.000 krónur í Pollasjóð en úr honum fá börn efnaminni foreldra styrk til að stunda tónlistarnám. DV gaf auk þess heilsíðuauglýsingu og netborða sem birtist á þjóðhátíðardaginn 17. júní fyrir gjafabréfið Pollasjóður sem fæst á www.gjofsemgefur.is . Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hjálparstarfi kirkjunnar.

Pollasjóður var stofnaður að frumkvæði strákanna í Pollapönki sem settu Eurovisiongítar Heiðars Arnar Kristjánssonar á uppboð á Virkum morgnum á Rás 2 í maí síðastliðnum. Feðgarnir Guðjón „Mustaine“ og Einar Guðjónsson sjómenn á Tjaldi SH-270 frá Rifi greiddu 320 þúsund krónur fyrir gítarinn og er það stofnfé sjóðsins. Landsmenn geta tekið þátt í verkefninu með því að kaupa gjafabréfið Pollasjóður á vefsíðunni www.gjofsemgefur.is en andvirði þess rennur í sjóðinn.

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir aðstoðarritstjóri afhenti Hjálparstarfinu framlag DV í dag. Við móttökuna sagði Vilborg Oddsdóttir umsjónarmaður innanlandsstarfs Hjálparstarfsins að með Pollasjóði gæfist möguleiki á að styðja betur við börn efnalítilla foreldra og veita þeim tækifæri til að stunda tónlistarnám og draga þar með úr félagslegri einungrun og styrkja sjálfsmynd barnanna.

Í hverjum mánuði leita um 200 barnafjölskyldur sem búa við sára fátækt til Hjálparstarfsins kirkjunnar. Hjálparstarfið veitir þeim efnislegan stuðning án tillits til trúar, þjóðernis, litarháttar, kyns eða skoðana.