DV ehf., útgáfufélag DV, skilaði 82,8 milljóna króna tapi á síðasta ári. Alls nemur tap félagsins á árunum 2010 og 2011 um 127 milljónum króna, samkvæmt óendurskoðuðum ársreikningi félagsins. Stöðugildi voru 39 í fyrra og námu launagreiðslur 193 milljónum króna. Eigið fé í lok síðasta árs var jákvætt um 10,5 milljónir.

Ársreikningurinn var staðfestur af stjórn þann 18. maí síðastliðinn en var skilað til Ársreikningaskrár þann 24. október. Fram kemur að tap fyrir afskriftir nam um 63,4 milljónum króna. Tæplega 12 milljónir voru afskrifaðar og nam tapið alls um 82,8 milljónum.

Nokkuð hefur verið fjallað um fjárhagsstöðu DV ehf. vegna vangreiddra gjalda. Í júlí skuldaði félagið 76 milljónir króna í opinber gjöld en samið var við tollstjóra um greiðslur, að því er greint var frá í Fréttablaðinu í lok september. Í byrjun októbermánaðar hafði Viðskiptablaðið eftir Ólafi M. Magnússyni, stjórnarformanni félagsins, að til stæði að auka hlutafé um 80 milljónir króna.

Stærstu hluthafar DV ehf. eru Lilja Skaftadóttir Hjartar sem á 26,9% hlutafjár, Reynir Traustason sem á 24,7% hlut og félagið Umgjörð sem á 18,6%.