DV ehf., útgáfufélag DV, skuldaði 76 milljónir króna í opinber gjöld í júlí en félagið samdi við tollstjóra um greiðslur á skuldinni. Um er að ræða 50 milljónir króna vegna staðgreiðslu skatta og 26 milljónir króna í ógreitt tryggingagjald. Uppsafnað tap á fyrstu tveimur árum reksturs félagsins nam um 90 milljónum. Þetta kemur fram í Markaðnum í Fréttablaðinu í dag.

Í árslok 2010 skuldaði DV ehf. um 34 milljónir króna í sömu gjöld samkvæmt fréttinni og hefur sú upphæð því rúmlega tvöfaldast á rúmlega einu og hálfu ári. DV hefur ekki skilað ársreikningi fyrir 2011 en samkvæmt yfirlýsingu frá endurskoðanda félagsins nam uppsafnað tap í lok 2011 alls 90 milljónum króna.

DV ehf., tók við rekstri DV í apríl 2010 og tapaði félagið 53,3 milljónum króna á árinu. Það var 84% af upphaflegu hlutafé. Síðan þá hefur hlutafé félagsins verið aukið nokkrum sinnum. Miðað við uppsafnað tap á á árunum 2010 og 2011 þá er tap félagsins á árinu 2011 um 36 milljónir króna.

Í samtali við Fréttablaðið segir Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri og fyrrverandi ritstjóri DV, að töluvert hafi verið greitt af skuldinni. „Við erum með samkomulag við tollstjóra um að greiða þetta upp og við munum gera það sem þarf til þess að klára þetta," segir Jón Trausti. Hann segir að hann búist ekki við því að þetta klárist fyrir áramót. Hann svarar spurningum um það hvort vöxtur skuldarinnar bendi ekki til þess að félagið sé illa rekstrarhæft til langs tíma með því að gripið hafi verið til sparnaðaraðgerða sem muni skila sér í betri horfum og að þeir muni gera það sem gera þarf.