Ákveðið hefur verið að fækka útgáfudögum DV, segir í fréttatilkynningu. Frá og með komandi mánaðarmótum verður DV gefið út sem helgarblað, en útgáfu á virkum dögum hætt.

Í tilkynningunni segir að ástæða breytinganna sé slæm afkoma DV á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Fram til janúar á þessu ári var rekstur blaðsins á réttri leið, en frá þeim tíma hefur dregið úr sölu blaðsins og auglýsingum.

?Reksturinn hefur ekki sýnt þau batamerki á undanförnum mánuðum að réttlætanlegt hafi verið talið að halda óbreyttum rekstri áfram," segir í tilkynningunni. ?Helgarblað DV hefur hins vegar notið mikilla vinsælda og verður byggt á þeim grunni við áframhaldandi útgáfu og uppbyggingu þess blaðs"

Páll Baldvin Baldvinsson, annar núverandi ritstjóra DV, mun stýra blaðinu, en Björgvin Guðmundsson ritstjóri fer til annarra starfa hjá 365.