Rússneski orkurisinn Gazprom nýtur ekki lengur þeirrar einokunarstöðu á Evrópumarkaði sem fyrirtækið hefur grætt á undanfarin ár. Margföldun í gasframleiðslu í Bandaríkjunum hefur leitt til þess að verð á náttúrugasi um heim allan hefur lækkað.

Í frétt Wall Street Journal er bent á að árið 2009 reyndi búlgarska ríkið að fá afslátt af rússnesku gasi en varð ekki ágengt. Síðasta haust náði Búlgaría hins vegar að kreista úr Gazprom 20% afslátt af gasverði. Haft er eftir fyrrverandi fjármálaráðherra Búlgaríu, Simeon Djankov að Gazprom geti ekki kúgað evrópuríki eins og fyrirtækið hafi gert. „Við fengum það á tilfinninguna að þeir þyrftu meira á okkur að halda en við á þeim og við notfærðum okkur það.“

Gazprom hefur lengi haft það orð á sér að vera hart í horn að taka í samningaviðræðum, en áðurnefnd þróun í Bandaríkjunum hefur leitt til þess að gríðarlegt magn af öðru eldsneyti leitar nú að mörkuðum. Má þar t.d. nefna bandarísk kol, sem ekki er lengur þörf fyrir í heimalandinu.

Evrópa hefur verið sá markaður sem Gazprom græðir mest á, en um fjórðungur af öllu gasi sem notað er í Evrópusambandsríkjunum kemur frá Rússlandi og Gazprom er með einkaleyfi á gasútflutningi þar í landi. Í fyrra dróst sala Gazprom á gasi til Evrópusambandsins saman um 9% og hagnaður fyrirtækisins minnkaði um eina 6,5 milljarða dala, eða um 760 milljarða króna.

Gazprom skiptir rússneska ríkið einnig gríðarlega miklu máli, en fyrirtækð er í ríkiseigu og um 10% af útflutningstekjum Rússlands koma frá fyrirtækinu. Fyrr á árinu gagnrýndi Vladimír Pútín, forseti Rússlands, fyrirtækið fyrir dofnandi útflutningstekjur, sem hefðu komið niður á tekjum ríkissjóðs. Nú er ekki útlit fyrir að markmið Pútíns um 5% hagvöxt í ár náist ekki.