„Kreppan á Grikklandi mun dýpka,“ segir Antonio Samaras, forsætisráðherra Grikklands. Þetta kemur fram í frétt BBC en Samaras telur að gríska hagkerfi muni skreppa saman um 7% á þessu ári, en áður var gert ráð fyrir 5% samdrætti. Kreppan þar verður því enn verri en búist var við.

Aðilar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og evrópska seðlabankans eru væntanlegir til Grikklands í dag til að meta stöðu mála gagnvart landinu. Eftir það mat kemur í ljós hvort Grikkir fái aðgang að síðasta hluta neyðarláns sem samið var um. Þá mun Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins einnig koma til Grikklands síðar í vikunni til að funda með Samaras um stöðuna í Grikklandi og Evrópu.