Samkvæmt fréttum danska viðskiptablaðsins Børsen verður það dýr biti fyrir danska fyrirtækið A.P. Møller - Mærsk að losa sig við Maersk Air. Segir blaðið að A.P. Møller verði nú m.a. að punga út 300 milljónum danskra króna (tæpum 3,2 milljörðum ísl. kr.) til að styrkja eiginfjárhag Maersk Air. Þannig fái íslensku kaupendurnir í Fons (sem áður keyptu keppinautinn Sterling) Maersk Air meira eða minna ókeypis og fái meðgjöf að auki sem sé gott innlegg til að búa til úr þessum tveim félögum stærsta lággjaldaflugfélag Norðurlanda.

"Stórkostlegur áfangi"

Samkvæmt upplýsingum Børsen fá íslenskir eigendur Sterling þó hugsanlega allt að hálfum milljarði danskra króna (allt að 5,3 milljarða ísl. kr.) í meðgjöf við kaupin á Maersk Air. Það þýði með öðrum orðum að eigendurnir fái í raun verðmæti í hendurnar sem jafni út kaupin á Sterling Air. Fons, eignarhaldsfélag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, keypti það félag í mars á þessu ári fyrir 400 milljónir dkr. eða tæpa 4,3 milljarða íslenskra króna og endanlega var gengið frá þeim kaupum þann 26. apríl. Reyndar mátu kaupendur þá að kaupverðið væri í kringum 4,8 milljarðar ísl. króna þegar tillit væri tekið til ýmiss kostnaðar.

Ítarleg fréttaskýring birtist í Viðskiptablaðinu á morgun um útrás Pálma Haraldssonar og félaga.