Risapöndurnar Hao Hao og Xing Hui voru fluttar rúmlega 8 þúsund kílómetra leið með DHL hraðflutningum frá Chengdu í Kína til Brussel í Belgíu um síðustu helgi. Pöndurnar, sem heita á íslensku Sú sæta og Blikandi stjarna, verða í Belgíu næstu 15 árin til sýnis og æxlunarrannsókna. Þær verða þó settar í einangrun í tvær vikur áður en þær verða fluttar í dýragarð skammt frá Mons.

Fram kemur í tilkynningu að pöndur eru í útrýmingarhættu. Blikandi stjarna og Sú sæta eru tvær af 1.600 eftirlifandi pöndum í heiminum. Risapöndur verða allt að einn og hálfur metri að stærð og vega um 136 kíló.

Fram kemur í tilkynningunni að hjá DHL fengu pöndurnar höfðinglegar móttökur og voru þær svokallaðir VIP farþegar – eða Very Important Pandas eins og það útleggst á ensku. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem DHL sér um flutning á dýrum í útrýmingarhættu en fyrirtækið hefur meðal annars séð um flutning á þremur nashyrningum, tveimur tígrisdýrum, níu górillum og fimm sækúm.