Eigendur Gunnars majónes, tvær dætur Gunnars Jónssonar stofnanda fyrirtækisins, lifðu hátt og fjármögnuðu lífsstíl sinn með fjármagni frá fyrirtækinu. Þegar halla tók undan í rekstri Gunnars majónes greiddu eigendurnir til baka um 80 milljónir króna á nokkurra ára tímabili til að halda fyrirtækinu á floti. Innborgunum var breytt í hlutafé og skuld við hluthafa. Til viðbótar unnu ættingjar erfingja Gunnars hjá fyrirtækinu, þar á meðal Sigríður Regína Waage, ekkja hans, allt undir það síðasta.

Velta majónesfyrirtækisins náði ekki að dekka úttektir og háan rekstrarkostnað og fór svo á endanum að Gunnars majónes var úrskurðað gjaldþrota í byrjun apríl. „Ég get sagt að þetta er ekki stórt gjaldþrot og ekkert svínarí,“ segir Nancy Ragnheiður Jónsson, önnur dætra Gunnars og Sigríðar. Nancy, sem er fyrrverandi stjórnarformaður Gunnars majónes, segir reksturinn hafa verið í járnum þegar nýr framkvæmdastjóri, Kleópatra Sigurðardóttir, tók við árið 2012 og hún gert allt til að koma rekstrinum á réttan kjöl. Það hafi ekki tekist.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .