Svo virðist sem sala á dýrari og vandaðri sjónvarpstækjum hefur aukist á þessu ári þrátt fyrir efnahagsniðursveiflu í íslensku samfélagi.

Sævar Haukdal sölustjóri Sense segir að ástæðan fyrir vaxandi sölu á vandaðri tækjum sé einkum sú að fólk geri orðið miklu meiri kröfur um hljóð og myndgæði en áður.

„Það hefði mátt gera ráð fyrir því í ljósi efnahagsástandsins að sala á vandaðri sjónvarpstækjum kæmi til með að dragast saman, en svo er ekki raunin, segir Sævar.

„Við áttum alveg eins von á því að ódýrari skjáir færu að seljast meira á kostnað þeirra dýrari, en raunin er önnur. Nú sjáum við aukningu í dýrari og vandaðri sjónvarpstækjum. Þetta er í raun á skjön við það sem búast hefði mátt við.”

Hann segir að sjónvarpstæki frá 200-400 þúsund krónum seljist nokkuð vel nú um stundir. Ástæðan sé einkum sú að fólk gerir orðið meiri kröfur um myndgæði.

„Fólk gerir orðið kröfur um fulla háskerpu í sjónvarpstækjum þó að sjónvarpsstöðvar sendi slíkt efni út í takmörkuðu magni enn sem komið er. Þá leggur það orðið miklu meiri áherslu á góð hljómgæði frá sjónvarpstækjum eða heimabíókerfum en áður, en gæðin eru sífellt að batna eftir því sem tækninni fleygir fram,“ segir Sævar.

„Fólk kaupir mest 40 tommu tæki sem aðal tæki heimilisins en það má gera ráð fyrir að eftirspurn eftir stærri tækjum eigi eftir að aukast þegar fram líða stundir. Á sama tíma mun verðið lækka. Það er enn sem komið er nokkur verðmunur á 40 og 50 tommu tækjum en sá munur mun minnka.”