Snorri Jakobsson, greinandi hjá Jakobsson Capital, segir að þrátt fyrir mikla óvissu í flugrekstri þá hafi tekjur Icelandair á öðrum ársfjórðungi verið í takt við væntingar. Í bréfi til viðskiptavina sinna segir hann að þrátt fyrir mikla óvissu vegna Covid smita sé ólíklegt að verulegar breytingar verði á verðmatsgengi hans sem var 2,24 krónur á hlut í síðasta verðmati.

Tekjur Icelandair á fyrri hluta ársins námu 134,9 milljónum dollara samanborið við 269,8 milljón dollara á sama tíma árið áður. Rekstraráætlun Jakobsson Capital gerir ráð fyrir að tekjur Icelandair verði lítillega meiri í ár en í fyrra eða 493 milljónir dollara. „Icelandair reiknar þó með meiri tekjum en Jakobsson Capital.“

Snorri segist ekki hafa verið jafn bjartsýnn á snöggan viðsnúning í ferðaþjónustu líkt og forsvarsmenn flugfélaganna og áætlun hans um komur ferðamanna legið örlítið undir spám greiningardeilda.

Sjá einnig: Icelandair tapaði 6,9 milljörðum

Hann segir að þó að júní mánuður hafi verið þokkalegur, hafi apríl örugglega verið mjög dapur. Snorri telur ljóst að tekjur Icelandair verði miklar á þriðja ársfjórðungi, ef marka má fjölda ferðamanna í júlí og kröftugt sjóðsstreymi félagsins. Handbært fé frá rekstri var jákvætt um 65 milljónir dollara á öðrum ársfjórðungi.

„Erfitt er þó að spá fyrir um afkomu fjórða ársfjórðungs annað en að mjög líklega verður umtalsvert rekstrartap sem mun vega á móti líklegum rekstrarhagnaði á þriðja ársfjórðungi.“

Skemmtistaðasleikur með einhverjum Player

Gengi flugfélaganna Icelandair og Play hefur lækkað talsvert upp á síðkastið eftir að Covid smitum tók að fjölga á ný. Um þetta segir Snorri:

„Líklega hefur Icelandair vaknað með móral og timburmenn eftir skemmtistaðasleik helgarinnar með einhverjum Player. Ljóst er að það var dýr skemmtistaðasleikur en markaðsvirði félagsins lækkaði um 8 ma.kr. eftir hratt versnandi Covid-tölur.“

Hann bætir þó við að markaðnum hættir til að yfir- og undirskjóta. „Gamlir hundar sem hafa séð allt, spila bara á fiðlu eða kannski á trommur á meðan Róm brennur. Einn skemmtistaðasleikur kemur þeim ekki úr jafnvægi.“

Þá eigi eftir að koma í ljós áhrifin af Covid smitum á áhuga ferðamanna að koma til Íslands, ef Ísland verður eldrautt og hversu velkomnir gestir Íslendingar verða erlendis. Snorri telur ólíklegt að þetta hafi mikil áhrif á verðmatsgengið þar sem rekstraráætlun hans rúmar bakslag á fjórða ársfjórðungi.