N1 Bensínstöð
N1 Bensínstöð
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Hagnaður N1 nam tæpum 638 milljónum króna á síðasta ári. Þetta er talsverður samdráttur á milli ára en hagnaður félagsins nam rúmum 1.190 milljónum króna árið 2012.

Fram kemur í uppgjöri N1 að tekjur N1 námu 58.122 milljónum króna í fyrra samanborið við 60.061 milljónir árið 2012. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 1.783 milljónum króna samanborið við 2.650 milljónir króna ári fyrr.

Tekið er fram í uppgjöri N1 að mikill kostnaður féll til á árinu vegna einskiptisliða. Þannig nam bókfærður kostnaður vegna skráningar félagins og sölu Bílanausts 372 milljónir króna.

Bókfært verð eigna N1 um síðustu áramót nam 26.798 milljónum króna borið saman við 27.769 milljónir við lok árs 2012. Lækkunina má aðallega rekja til minni birgða og lægri stöðu viðskiptakrafna. Þá nam eigið fé 15.152 milljónum króna við lok ársins. Ári fyrr nam það 14.514 milljónum króna. Vaxtaberandi skuldir við lánastofnanir og tengda aðila námu 7.064 milljörðum króna um síðustu áramót, að því er fram kemur í uppgjöri N1.