*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Innlent 27. maí 2020 07:30

Dyr út í séreign ekki sérinngangur

Eigandi hunds í fjölbýlishúsi má ekki hafa hann þar nema afla samþykkis annarra eigenda þrátt fyrir að einkadyr séu inn í íbúðina.

Jóhann Óli Eiðsson
Ferfætlingurinn hér að ofan tengist fréttinni ekki að öðru leyti en því að hann er hundur.

Kærunefnd húsamála (KHM) féllst nýverið á þau rök íbúa í fjölbýlishúsi að öðrum eiganda hússins væri óheimilt að halda hund í húsinu. Að mati nefndarinnar gátu dyr út frá eldhúsi íbúðarinnar ekki uppfyllt það skilyrði að teljast sérinngangur fyrir íbúðina.

Í áliti nefndarinnar kemur ekki fram hvaða hús það er sem um ræðir en sagt að þar sé á ferð fjölbýlishús með 24 eignarhlutum. Málsaðilar búi í sama stigagangi. Kvartandi málsins taldi að óheimilt væri að halda hund í íbúðinni þar sem samþykkis tveggja þriðju eigenda hefði ekki verið aflað líkt og lög um fjöleignarhús kveða á um.

Kvartandinn sagði að hún hefði bráðaofnæmi fyrir hundum og væri í sérstakri meðferð til að vinna bug á því. Ef til þess kæmi að hún fengi ofnæmiskast gæti það haft slæmar afleiðingar fyrir téða meðferð og hefði hún því lítinn áhuga á að vita af hundi þarna í stigaganginum. Hún hefði keypt íbúð sína árið 2019 og þá gengið úr skugga um að engin dýr væru í húsinu og að þau væru ekki þar leyfð.

Eigandi hundsins taldi á móti að henni væri heimilt að hafa hann þarna þar sem hún hefði sérinngang í sína íbúð og þyrfti því ekki að brúka inngang í sameign. Umræddur inngangur væri ekki hefðbundnar svaladyr heldur inngangur til viðbótar við aðalinngang. Um sérinngang væri að ræða í þeim skilningi að hann liggi aðeins að séreign hennar en ekki sameign fjöleignarhússins. Kvartandi málsins taldi á móti að umræddar dyr uppfylltu ekki kröfur byggingareglugerða til að geta talist útidyr og gæti þar með ekki verið sérinngangur.

Í áliti nefndarinnar segir að samkvæmt fjöleignarhúsalögum sé hunda- og kattahald í fjöleignarhúsum háð því að tveir þriðju hlutar eigenda með sameiginlegan inngang eða stigagang samþykki að það sé heimilt. Ákvæðið kom inn í lögin eftir athugasemdir Samtaka gegn astma- og ofnæmi en þau lögðu mikla áherslu á að takmarka dýrahald í fjöleignarhúsum.

Að mati nefndarinnar varð að skýra téð lagaákvæði samkvæmt orðanna hljóðan. Mat á því hvort á íbúð væri sameiginlegur inngangur færi eftir teikningu hússins og hvort aðalinngangur íbúðar væri sameiginlegur með öðrum íbúðum. Ekki skipti höfuðmáli hvort unnt væri að komast inn í íbúðina eftir öðrum leiðum.

„Þannig geta væntanlegir kaupendur séð af teikningum og gögnum um húsið hvort til greina komi að halda þar hunda og ketti, án samþykkis annarra eigenda. Þar sem ekki er gert ráð fyrir á teikningum húss aðila að útgangur á sérafnotaflöt gagnaðila sé notaður sem inngangur að íbúðinni telur kærunefnd að hann geti ekki talist sérinngangur,“ segir í áliti nefndarinnar.

Nefndin komst því að þeirri niðurstöðu að óheimilt væri að halda hundinn í húsinu nema að afla áður því lágmarks samþykki sem nauðsynlegt er lögum samkvæmt.