Verkfall dýralækna hjá Matvælastofnun (MAST) hefur valdið því að slátrun dýra hefur legið niðri um hríð og ástandið á mörgum svína og kjúklingabúum er orðið alvarlegt. Samkvæmt lögum ber dýralæknum stofnunarinnar að hafa eftirlit með slátrun.

Fyrir þingi liggur nú frumvarp sem kveður meðal annars á um breytingar á búvörulögum. Í frumvarpinu er aðallega verið að fjalla um flutning stjórnsýsluverkefna frá Bændasamtökunum til Matvælastofnunar. Ýmsir hafa sent inn umsagnir um frumvarpið og meðal annars Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð.

Í umsögnum er velt upp þeirri hugmynd hvort ekki megi útvista verkefnum Matvælastofnunar.

„Í ljósi almanna heilla og til að tryggja velferð dýra mætti til að byrja með huga að því að útvista til dýralækna á einkamarkaði og faggiltra skoðunarstofa eftirlitsverkefni sem dýralæknar hjá MAST annast nú,“ segir í umsögn SA.