Viggó Örn Jónsson stofnaði auglýsingastofuna Jónsson & Le´macks árið 2003 ásamt Agnari Tryggva Le´macks. Stofan hefur síðan, líkt og mörg önnur fyrirtæki, lifað af það sem kalla má hæðir og lægðir í íslensku atvinnulífi og starfar í dag fyrir ýmis stórfyrirtæki á borð við Landsbankann, Sjóvá, Landsvirkjun og 66° Norður og hefur yfir að skipa 45 starfsmönnum.

Að sögn Viggó eru þensluár á borð við árin 2007-2008 ekki endilega æskilegt umhverfi fyrir íslenskar auglýsingastofur þar sem reksturinn verður þunglamalegur og fyrirtæki missa tengingu við neytendur. Hann er hugsi yfir þróun fjölmiðlunar undanfarin ár og segir búast við því að fólk gefist fljótlega upp á samfélagsmiðlum sem í dag hafi þann eina tilgang að vera markaðssetningartæki. Hann segir umhverfið breytt að því leyti að fólk er meðvitaðra en áður um markaðssetningu og því mikilvægara en nokkru sinni að skilaboð sem fyrirtæki sendi frá sér séu sönn.

Sjö af átta stóru viðskiptavinunum fóru í þrot

Viggó rifjar upp að í fyrstu hafi hann og Agnar Tryggvi verið einu starfsmenn fyrirtækisins en það vatt þó hratt upp á sig og þegar áfallaárið 2008 gekk í garð voru starfsmenn fyrirtækisins orðnir 40. „Það má vissulega segja að þetta hafi verið mjög óheppilegt allt saman enda fóru sjö af átta stóru viðskiptavinum okkar í þrot í kjölfar bankahrunsins. Okkur tókst þó að jafna okkur ágætlega á árunum 2009-2010.“

Segðu mér aðeins nánar frá þessum árum, fyrst uppgangsárunum og síðan árunum eftir 2008. Hvernig var að reka auglýsingafyrirtæki á þessum mismunandi tímum?

„Fyrir mér voru bóluárin engin sérstök gullöld. Þegar það myndast svona bólgustemning á Íslandi, svolítið eins og um þessar mundir, þá verður kostnaðarhliðin í rekstrinum alltaf svolítið glötuð. Launin urðu ansi há og þar sem það er enginn „free-lance“ kúltúr á Íslandi eru auglýsingastofur ýmist ofmannaðar eða undirmannaðar. Í slíku ástandi er erfiðara að finna stöðugleika sem veldur gjarnan ójafnvægi í rekstrinum. Þar sem að við vorum nýir í þessum bransa á þessum tíma og vissum ekkert hvað við vorum að gera þá var þetta frekar glatað og við enduðum alltof mannaðir og í töluverðum vandræðum. Þrátt fyrir þetta brambolt þá átti tíminn eftir hrun betur við okkur. Styrkleikar okkar sem fyrirtæki finnst mér njóta sín betur. Það sem gerðist árin 2006-2008 á íslenskum fyrirtækjamarkaði var eins og að stjórnendur fyrirtækja hefðu kannski meiri áhuga á hlutabréfaverði en viðskiptavinum sínum.

Það er frekar augljóst ef maður lítur til baka að auglýsingarnar snúast meira um það en vörur og þjónustu. Þetta voru dýrar og sjálfumglaðar auglýsingar sem allar virtust ganga út á það hverjir voru stærstir og flottastir.“

Er íslenskt viðskiptalíf komið aftur þangað að þínu mati?

„Það eru svona einkenni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.