Fjárfesting í íbúðarhúsnæði verður í ár um það bil 40% af því sem hún var árið 2007. Í ár er gert ráð fyrir að hún verði um 2,9% af landsframleiðslu en hún var um 7% af landsframleiðslu árið 2007. Samkvæmt spá Hagstofunnar verður hún 4,3% árið 2018.

Fasteignaviðskipti drógust mikið saman árin 2009 og 2010 en hafa aukist eftir það. Á íbúðamarkaði jókst veltan um 57% en fjöldi kaupsamninga var 47% meiri 2011 en 2010. Íbúðamarkaðurinn hélt áfram að styrkjast árið 2012 þó að vöxturinn hafi ekki verið eins mikill og 2011. Í fyrra jókst veltan um ríflega 20% en fjöldi samninga um 11%. Á fyrstu þremur mánuðum 2014 er veltuaukning 32% en fjöldi samninga er 15% fleiri en á sama tíma í fyrra.

Meðalverð á kaupsamning er nokkru hærra fyrstu þrjá mánuði ársins en var í fyrra, sem þýðir væntanlega að dýrari eignir hafa selst í meira mæli í byrjun ársins en undanfarin ár. Undanfarin misseri hefur raunverð íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað en verð á sérbýli lækkað að raungildi. Á sama tíma hefur húsnæði utan höfuðborgarsvæðisins í heild lækkað að raunvirði.

Yfir landið allt hækkaði raunverð íbúðarhúsnæðis um u.þ.b. 2% í fyrra en spáin gerir ráð fyrir lítilsháttar raunhækkun allan spátímann. Fyrirhuguð lækkun verðtryggðra fasteignalána mun bæta eiginfjárstöðu og kaupgetu margra fjölskyldna. Það getur leitt til meiri hreyfinga á íbúðamarkaði og eitthvað hærra íbúðaverðs. Á móti kemur að framboð á íbúðarhúsnæði mun aukast með vexti íbúðafjárfestingar en það vinnur á móti hækkunum. Ef verðtryggð lán til 40 ára verða ekki í boði á næstu árum dregur það úr kaupgetu á íbúðamarkaði sem einnig vinnur gegn hækkun íbúðaverðs.