Verð á 104 fermetra eign á höfuðborgarsvæðinu kostar var seld á 49 milljónir krónur að meðaltali á fyrstu átta mánuðum ársins 2020. Er meðalfermetraverðið í kringum 473 þúsund krónur. Þetta kemur fram í upplýsingum úr verðsjá Þjóðskrár Íslands en þær upplýsingar byggja á þinglýstum kaupsamningum fasteigna.

Skoðaði Viðskiptablaðið verðþróun á 90 til 120 fermetra eignum í fjölbýli frá árinu 2016 til og með ársins 2020 annars vegar og 120 til 250 fermetra eignum í sérbýli á sama tímabili hins vegar. Í báðum tilfellum var fermetraverð fyrstu átta mánuði hvers árs skoðað. Miðað við forsendur sem blaðið gaf sér í verðsjánni er meðalstærð íbúða í fjölbýli um 104 fermetrar en í sérbýli 191 til 194 fermetrar.

Hæsta og lægsta fermetraverðið

Þegar verð á íbúðum í fjölbýli er skoðað kemur í ljós að fermetraverð hækkaði mikið á milli áranna 2016 og 2017 eða um ríflega 20%. Verðhækkunin nam 6% á milli áranna 2017 og 2018 og rétt ríflega 3% á milli áranna 2018 og 2019. Á fyrstu átta mánuðum þessa árs er verðið að þokast aftur upp á við og nemur hækkunin á milli fyrstu átta mánaða síðasta árs og fyrstu átta mánaða yfirstandandi árs um 5,5% eins og áður sagði.

Mikill munur er á fermetraverði 90 til 120 fermetra eigna í fjölbýli innan höfuðborgarsvæðisins. Á fyrstu átta mánuðum ársins er fermetraverðið hæst í Kringlunni, eða póstnúmeri 103, eða 621 þúsund krónur að meðaltali. Ástæðan er að mikil þétting byggðar hefur verið á þessu svæði síðustu misseri og fjöldi nýrra eigna verið seldur á reitnum við Útvarpshúsið í Efstaleiti. Næsthæst er fermetraverðið í Sjálandshverfinu í Garðabæ eða um 610 þúsund krónur en þar á eftir kemur Skerjafjörðurinn, þar sem verðið er í kringum 586 þúsund krónur. Í Skerjafirðinum er verið að þétta byggð við Hlíðarenda, í hverfi sem fengið hefur póstnúmerið 102.

Ódýrasta fermetraverðið er í Breiðholti. Í Fellahverfi eru fjölbýliseignir á 363 þúsund krónur á fermetrann að meðaltali og í Neðra- Breiðholti er fermetraverðið um 369 þúsund. Í Hólahverfi /Berg er það í kringum 371 þúsund.

Mikill verðmunur

Verð á sérbýli hefur hækkað um 44% á síðustu fimm árum. Er þá miðað við meðalfermetraverð á 120 til 250 fermetra eignum fyrstu átta mánuði ársins 2016 samanborið við sama tímabil 2020. Verðþróunin á sérbýli á milli ára er keimlík og á eignum í fjölbýli. Mesta hækkunin, eða 21%, var á milli áranna 2016 og 2017. Hækkunin á milli 2017 og 2018 nam 11% og 3% á milli áranna 2018 og 2019. Verðið hefur mjakast upp á við síðustu misseri og nemur hækkunin 5% á milli áranna 2019 og 2020.

Í sérbýli er hæsta fermetraverðið það sem af er árinu í Vesturbænum (Hagar/Melar) eða 554 þúsund krónur að meðaltali. Hafa verður í huga að á bakvið þá tölu eru einungis þrír kaupsamningar. Næsthæsta verðið var á Seltjarnarnesi og þar á eftir kom Garðabær (Ásar).

Lægsta fermetraverð sá sérbýli á fyrstu átta mánuðum ársins er í Seljahverfi í Breiðholti eða 334 þúsund krónur að meðaltali. Annars staðar í Breiðholtinu (Hólar/Berg) er næstlægsta verðið og þar á eftir kemur sérbýli í Úlfarsárdal.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér