Eignin sem Íbúðalánasjóður seldi í Vindakór í síðasta mánuði er stærsta eignin sem sjóðurinn hefur selt frá hruni. Þetta segir Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, í samtali við VB.is. Í húsinu eru 54 íbúðir. Íbúðalánasjóður tók eignina yfir árið 2009 þegar verktakar sem áttu húsið gátu ekki staðið í skilum.

Sigurður segir að Íbúðalánasjóður hafi verið með eignir á sölu víðsvegar á landinu. Nefnir hann sem dæmi eignir í Reykjanesbæ, á Akranesi og í Árborg. „Þetta er aftur á móti stærsta eignin á landsvísu – dýrasta og stærsta,“ segir Sigurður um húsið í Vindakór. Hann vill aftur á móti hvorki gefa upp kaupverð né segja hverjir keyptu.

Húsið var að drabbast niður þegar Íbúðalánasjóður eignaðist það. „Þegar hún kemst í okkar eigu þá var staðan þannig að klæðningin var byrjuð að fjúka utan af henni. Við þurftum að setja hreinsunarsveit í að hreinsa og fórum í smá framkvæmdir,“ segir Sigurður. Markmiðið hafi verið að loka húsinu og verja það fyrir frekara tjóni.