Dýrasta íbúðarhúsnæði Bandaríkjanna er nú falt en ásett verð þess er 165 milljónir Bandaríkjadala sem samsvarar 9.900 milljónum íslenskra króna. Eignin er í Beverly Hills hverfinu í Los Angeles í Kaliforníuríki. Í húsinu er tuttugu og níu herbergi, þrjár sundlaugar, tennisvellir, kvikmyndahús og diskótek og er landareignin 2,5 hektarar. Það er nú í eigu Leonard Ross en að sögn fasteignasala hans vill hann selja vegna þess að hann hyggst "breyta um lífsstíl."

Húsið var reist árið 1920 og hefur það hýst margt stórmennið. Blaðakonungurinn William Randolph Hearst átti húsið á tímabili en hann keypti það fyrir 120 þúsund dali árið 1940. John F. Kennedy og Jacqueline eiginkona hans eyddu hveitibrauðsdögum sínum í því árið 1953. Kennedy hefur kunnað vel við sig þar en húsið var notað undir kosningamiðstöð hans á Vesturströndinni er hann bauð sig fram til forseta 1960. Fasteignin kemur einnig við sögu í kvikmynd Francis Ford Coppola The Godfather.

Íbúðarhúsnæði hefur aldrei selst í Bandaríkjunum fyrir meira en hundrað milljónir dala. Hæsta verð sem hefur verið greitt fyrir slíka eign til þessa er 94 milljónir dala. Hinsvegar hefur framboðið á eignum sem kosta meira en hundrað milljónir dala aukist að undanförnu. Tíu herbergja í hús í Montana ríki er falt fyrir 155 milljónir dala. Skíðaáhugamenn geta einnig keypt eign í Aspen í Colorado. Hún er í eigu Bandar bin Sultan fursta, fyrrum sendiherra Sádi-Araba í Bandaríkjunum. Á hana er sett 135 milljónir dala en ugglaust er hægt að ná verðinu niður þar sem að hún er ekki enn seld ári eftir að hún var sett á sölu.